145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ólínu K. Þorvarðardóttur fyrir skorinorða ræðu þar sem hún fór ágætlega yfir sviðið og þær breytingar sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja á íslenskt samfélag, allt breytingar sem eru í þá átt að auka á misskiptingu, þ.e. bæta kjör þeirra sem nú þegar hafa það gott, en ekki að bæta eða jafnvel skerða kjör þeirra sem hallari fæti standa.

Eitt af því sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni voru veiðigjöldin og lækkun á þeim. Nú kom það fram í máli hv. þingmanns og formanns fjárlaganefndar, Vigdísar Hauksdóttur, ég man ekki hvort það var í ræðu fyrr í dag eða í andsvari, að ríkissjóður sé engu að síður að fá greidda skatta af arðinum, sjávarútvegsfyrirtæki greiði minna í veiðigjöld en þau greiði sér. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér í því að hér sé brauðmolakenningin í rauninni að ná nýjum hæðum þar sem ríkissjóður á að þakka fyrir það að fá greidda skatta eða tekjur sem hrökkva af gróðanum og arðinum sem stórfyrirtækin, fyrirtækin sem hvað best standa, greiða eigendum sínum.