145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:03]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að hafi einhvern tíma verið efni til þess að leiðrétta kúrsinn og ná fram einhverju sem heitið getur jöfnuður eða leiðrétting, þá er það núna. Við erum að tala um hagnað af ríkissjóði og við erum líka að tala um annað, við vitum að ónýttar tekjuleiðir eru til staðar. Það er sérstaklega kannski í því ljósi sem er svo sárt að horfa upp á þá forgangsröðun sem núverandi ríkisstjórn er að leggja af mörkum.

Við sjáum bara hvar velmegun og samfélagsleg sátt er ríkust í löndunum í kringum okkur. Það er þar sem samfélög hafa verið byggð upp á grundvelli félagslegra forsendna, eins og til dæmis á forsendum jafnaðarmannaflokkanna á Norðurlöndum. Þar ríkir miklu meiri samfélagsleg sátt og það er samfélagsleg sátt sem ekki er rofin um ákveðin grundvallargildi. Það er mjög sorglegt að sjá það aftur á móti á Íslandi að verið er að rjúfa hvert vígið á fætur öðru. Í þessu litla 300 þús. manna samfélagi þar sem við ættum að geta sýnt samstöðu og gert okkur grein fyrir að við erum ein þjóð þegar allt kemur til alls, þá er átakanlegt að það skuli vera dulin áform um einkavæðingu viðkvæmrar heilbrigðisþjónustu, dulin áform um hluti sem á ekki að bera upp við þjóðþingið til dæmis, á sama tíma og verið er að mylja undir þá sem í raun og einskis þarfnast, eins og útgerðarmenn og auðmenn í þessu landi.