145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er sumum sárt að hlusta á það að þær stórframkvæmdir sem eru í vegamálum hafi verið ákvarðaðar af síðustu ríkisstjórn og hrint af stað, en svona er sannleikurinn.

En mig langar að heyra hvort hv. þingmaður óttist að ekki verði úr því sem hefur verið barist fyrir lengi, eins og stórframkvæmdum á borð við Dýrafjarðargöng. Samgönguáætlun liggur ekki fyrir og nú er að myndast ákveðin þensla á ákveðnum sviðum á höfuðborgarsvæðinu. Í hagfræðinni og efnahagsstjórn er talað um að ríkið komi með innspýtingu þegar er lægð í efnahagskerfinu en dragi sig frekar til hliðar þegar einkaþensla er eða fyrirtæki eru í vexti og hagvöxtur er að aukast, eins og er á ákveðnum svæðum en langt í frá úti um allt land. Þetta getur bitnað á þeim svæðum á landsbyggðinni sem alltaf sitja eftir og þar sem ekki var farið strax í framkvæmdir sem áætlaðar voru í fjárfestingaráætlun, eins og Dýrafjarðargöngin. Við eigum á hættu að missa af lestinni, við lendum alltaf einhvers staðar milli skips og bryggju. Núna gæti dregið úr aðhaldi hjá þessari hægri stjórn sem hefur verið mjög mikið á þeim sviðum sem snúa að velferð og samgöngumálum og uppbyggingu innviða. Þetta getur birst í því að ekki verði talið gott að ríkið fari út í einhverjar stórframkvæmdir sem hafa beðið í áratugi, eins og t.d. Dýrafjarðargöng og samgöngur almennt í landinu, einmitt þegar maður mundi ætla að loksins væri kominn tími til þess.