145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:12]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur nú verið svo grátlegt að fylgjast til dæmis með Vestfjörðunum, að það hefur ýmist verið rökstutt með þenslu eða kreppu að ekki skuli vera hægt að tryggja hag þess landshluta með þeim hætti sem hann í rauninni ætti rétt á, ekki síst hafandi þær auðlindir sem hann hefur fram undan landsteinum. Það er alltaf ákveðin hætta að stórframkvæmdum sem hafa verið á borðinu verði frestað þegar þenslumerki eru á lofti í hagkerfinu, eins og að sumu leyti er farið að gerast núna. En svo mikið er víst að Dýrafjarðargöng áttu að verða fyrsta framkvæmdin á fyrstu jarðgangaáætluninni sem sett var fram fyrir hartnær tveimur áratugum síðan. Þau hafa verið tilbúin til útboðs í mörg ár og það væri algerlega fyrir neðan allar hellur ef menn ætluðu að fara að skúbba þeirri framkvæmd út af borðinu núna, jafn mikilvæg og hún nú er fyrir þennan landshluta, uppbyggingu ferðaþjónustunnar og ekki síður í tengslum við sameiningu stjórnsýslustofnana og áform um sameiningu sveitarfélaga á þessu svæði, vegna þess að það er engin önnur tenging yfir vetrarmánuðina milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða en Dýrafjarðargöng.

Það væri náttúrlega þessum vettvangi, þinginu, gersamlega til háborinnar skammar ef menn ætluðu að svíkja þau loforð og þau áform sem uppi hafa verið um að Dýrafjarðargöng væru næst í röðinni og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því. En auðvitað er þessari ríkisstjórn trúandi til alls.