145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hennar. Mér fannst afstaða hennar koma býsna vel og skýrt til skila, ekki síst varðandi kjör öryrkja og aldraðra og afsláttinn stóra af veiðigjöldunum sem okkur hefur orðið tíðrætt um í dag, sem er auðvitað einn nöturlegasti vitnisburðurinn um áherslur núverandi ríkisstjórnar. Þingmaðurinn fór líka vel yfir barnabótamálin sem var fróðlegt og gott að hlusta á.

En mig langar aðeins til að inna hv. þingmann nánar eftir því hvað henni finnist um þær áherslur, þær grófu áherslur, sem lesa má út úr frumvarpinu. Sér þingmaðurinn skýrar línur í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og í hvers þágu er sú forgangsröðun að mati hv. þingmanns? Er hún sammála mér um það að hér séu rangar áherslur í raun og veru? Verið sé að forgangsraða í þágu þeirra sem breiðust hafa bökin í samfélagi okkar, þeirra sem í raun og veru ættu sjálfir að vera að leggja sitt af mörkum til að lyfta af samfélagslegum byrðum vegna þess að útgerðarauðvaldið til dæmis er eins og margoft hefur komið fram fyllilega aflögufært?

Mér þætti vænt um að heyra nánar sjónarmið þingmannsins í þessu efni.