145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil nú fara nokkrum orðum um þetta frumvarp við 2. umr. enda er full ástæða til. Við sjáum jafnvel gott útlit fyrir þetta ár. Tekjur reynast enn meiri en reiknað hafði verið með og aðstæður eru á margan hátt öfundsverðar í þjóðarbúskapnum, mjög góð afkoma burðaratvinnugreina eins og sjávarútvegsins og mikill uppgangur í ferðaþjónustu. Við njótum auðvitað líka ávaxtanna af erfiðum aðhaldsaðgerðum í fyrri tíð.

Þegar kemur að fjáraukalögum blasir við að bregðast þarf við þegar of naumt hefur verið skammtað á yfirstandandi ári. Það er eiginlega óhjákvæmilegt miðað við aðhaldsaðgerðir undanfarinna ára að fjárhagsrammi ýmissa stofnana, einkanlega á sviði heilbrigðismála og félagsmála, sé þröngur og þar af leiðandi kunna að vera ríkari ástæður en ella til framlaga á fjáraukalögum. Ég tek eftir í tillögu meiri hluta nefndarinnar að gert er ráð fyrir viðbótarframlagi upp á 470 milljónir vegna lyfjamála til að mæta endurmati sjúkratrygginga í áætluðum útgjöldum þannig að útgjöld ársins verða tæpir 8,8 milljarðar á verðlagi gildandi fjárlaga og hækka um 570 millj. kr. sem eru 7% umfram fjárheimildir. Það sem skiptir máli er í sjálfu sér ekki að fá fullkomlega tæmandi skýringar á þessu viðbótarframlagi, en ég sé ekki hvort þarna er mætt þeirri þörf sem hefur sannarlega komið í ljós á þessu ári vegna kvótabundinna lyfja þar sem Sjúkratryggingar Íslands hafa neitað að heimila fleiri en litlum hópi einstaklinga afnot af mjög mikilvægum lyfjum sem geta komið í veg fyrir ótímabæra blindu og svo er lifrarbólgumálið þekkt, sem var mikið í umræðu á árinu.

Það er eðlilegt í fjáraukalögum að mínu viti að mæta þörf sem hefur komið í ljós og veita þjónustu sem er lífsbjargandi eða skiptir miklu máli fyrir lífsgæði fólks, svo sem að forða því frá ótímabærri blindu, frekar en að fara þá kaldrifjuðu leið sem Sjúkratryggingar hafa farið og segja einfaldlega: Við erum með kvóta hérna upp á X marga einstaklinga sem geta fengið lyfið miðað við okkar áætlanir og ef þú ert svo óheppinn að vera númer 31 í röðinni þegar 30 eru búnir að fá lyfið þá færð þú ekki lyfið og ert ofurseldur grimmilegum örlögum. Það er ekki í samræmi við þá aðferðafræði sem við höfum tileinkað okkur í heilbrigðisþjónustunni eða í félagsþjónustunni að öðru leyti. Við kvótabindum til dæmis ekki lífsbjargandi meðferð eða meðferð við sjúka. Við segjum ekki við menn með beinbrot: Fyrirgefðu, við erum búin að gera við svo mikið af beinbrotum þennan mánuðinn að við gerum bara ekki við meira núna. Á sama hátt er brýn þörf á því að til sé skynsamlegt vinnufyrirkomulag hjá Sjúkratryggingum gagnvart því þegar fólk þarf á dýrum lyfjum að halda, sem hafa forðað fólki frá alvarlegum afleiðingum sjúkdóma eins og blinda er og lifrarbólga.

Ég vil síðan gera hér að umtalsefni breytingartillögu minni hlutans því að þar eru stóru þættirnir sem ég held að við getum öll verið sammála um að sé eðlilegt að horfa til þegar horft er á heildarumgjörð fjárlaganna á þessu ári sem brátt er á enda runnið. Mikilvægasti þátturinn er breytingartillaga um að bætur almannatrygginga hækki frá 1. maí á þessu ári með sama hætti og launaþróun í láglaunasamningum.

Nú heyrir maður að ríkisstjórnin, hæstv. forsætisráðherra ítrekaði það hér í morgun, situr fast við þann keip að láta bætur almannatrygginga ekki endurspegla hækkunarþróun samkvæmt láglaunasamningum á almennum vinnumarkaði. Í rökstuðningi hæstv. forsætisráðherra í fyrirspurnatíma í morgun mátti greina þau efnisrök að kerfið sem við hefðum nú með gildandi lögum tryggði að við áramót uppfærðist fólk á bótum almannatrygginga til samræmis við launaþróun. Það er rétt en samningarnir sem gerðir hafa verið, jafnt á almennum vinnumarkaði sem af ríkinu sem vinnuveitanda við viðsemjendur sína, fela í sér hækkun þegar fjórir mánuðir eru liðnir af árinu, þ.e. þegar þriðjungur ársins er liðinn. Hækkanir koma til framkvæmda 1. maí jafnt á yfirstandandi ári og á því næsta. Það blasir því við að óbreyttu að hæstv. forsætisráðherra muni hafa rétt fyrir sér hvað það varðar að 1. janúar 2017 verði lífeyrisþegi með sambærilega stöðu og launamaður, en þá verður lífeyrisþeginn búinn að vera átta mánuði á árinu 2015 með minna milli handanna en launamaðurinn og sömuleiðis átta mánuði á árinu 2016 með minna milli handanna en launamaðurinn. Þá hefur hann sem sagt af þessum tveimur árum verið jafn stæður launamanninum í átta mánuði, en staðið honum að baki í 16 mánuði. Það sér það hver maður að sú afleiðing er ekki rökrétt. Hún tryggir ekki að andi laganna um að launaþróun lífeyrisþega endurspegli launaþróun á almennum markaði nái tilgangi sínum.

Ég held að það sé mikilvægt að rifja upp fordæmi frá árinu 2011 þegar síðast voru gerðir láglaunasamningar með það yfirlýsta markmið að hækka lægstu laun. Þá létum við í þáverandi ríkisstjórn þær hækkanir skila sér með sama hætti til lífeyrisþega. Það var ekki sjálfsagt. Það var ekki lagaskylda til þess. Það var ekki heldur samningsskylda til þess, en við töldum það eðlilega afleiðingu af þeirri siðferðilegu skuldbindingu sem ríkið sem launagreiðandi hafði undirgengist með því að viðurkenna við samningaborðið að hækka þyrfti sérstaklega lægstu laun umfram önnur og þá þyrftu bætur almannatrygginga að hækka með sama hætti.

Ef sammælst verður um það á vinnumarkaði að lægstu laun séu undir því sem mannsæmandi getur talist, eins og varð við kjarasamningsgerðina nú í vor sem ríkið skrifaði upp á fyrir sitt leyti sem viðsemjandi, þá hlýtur viðmiðunin um mannsæmandi kjör líka að gilda um þá sem geta ekki unnið fyrir sér vegna aldurs eða skorts á starfsgetu. Það leiðir mann að þeirri rökbundnu niðurstöðu að það sé engin leið fyrir ríkið að halda sig við þá túlkun sem hæstv. forsætisráðherra endurflutti hér í morgun, að skýla sér á bak við gildandi lagaákvæði um uppfærslu lágmarkskjara lífeyrisþega við áramót.

Ég vil líka, virðulegi forseti, gera vaxtabætur og barnabætur að umtalsefni. Það er athyglisvert að sjá að ríkisstjórnin hefur farið þá leið með bæði þessi stoðkerfi að herða skerðingarmörk og túlka þau bókstaflega á þann veg að ef veittar fjárheimildir til barnabóta tæmast ekki vegna skerðingarmarkanna þá verði það sem eftir stendur fellt niður í staðinn fyrir að gefa aftur á garðann og tæma fjárlagaheimildina. Það væri eðlilegra í ljósi þeirrar sérstöðu að barnabótum hefur verið ætlað að mæta framfærslukostnaði vegna barna, en sögulega séð hefur þeim ekki verið ætlað að vera láglaunabætur.

Nú heyri ég að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur að undirlagi og áeggjan ríkisstjórnarinnar kokkað upp einhverja skýrslu um breytingar á skattkerfinu, sem eiga meðal annars að fela í sér að vega enn frekar að jöfnunarhlutverki barnabótakerfisins. Ég verð einfaldlega að segja að ég held að það sé mikil öfugþróun sem muni bitna á mjög harka á meðaltekjufólki. Það virðist eiginlega vera úthugsuð stefna ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans að vega stöðugt að þessari framfærslustoð sem meðaltekjufólk hefur haft, bæði af barnabótakerfinu og vaxtabótunum.

Þegar kemur að vaxtabótunum er mjög athyglisvert að þar er eiginlega sama sagan. Vegna reiknaðs ábata heimilanna af hækkandi fasteignaverði jókst nettóeign heimilanna í húsnæði. Það hefur í för með sér greiðslu lægri vaxtabóta vegna eignatenginganna í vaxtabótakerfinu. Nú er það alkunna að vaxtabótakerfið var ágætlega hannað í upphafi, en í því eru núna komnir að mig minnir 65 misjafnlega útfærðir þröskuldar. Þar af leiðandi er það orðið þannig að ef tekjur aukast og reiknuð eign eykst í húsnæði þá rýrna bæturnar sem fólk á rétt á, jafnvel þó að afborgunin minnki ekki að nokkru leyti því að greiðslubyrðin er engu að síður sú sama.

Það er víðþekkt að fólk hefur stundum freistast til þess að taka lán út á hækkandi fasteignamat vegna þess að það sér á pappírunum að eignin í húsnæðinu er að aukast. Það hefur ekki þótt góð latína og ekki verið talið hrósvert þegar fólk hefur þannig veðjað á óljósa framtíð. Frægur hagfræðingur, Bjarni Bragi Jónsson, sem var aðstoðarseðlabankastjóri, kallaði þetta einhvern tímann eiginfjárdrátt, þ.e. þegar menn væru í reynd að draga sér fé af eigin fé í eign.

Það er mjög skrýtið ef ríkisstjórnin er farinn að ástunda það að spara sér greiðslur sem eiga að vera stuðningsgreiðslur til lífskjarajöfnunar og skýlir sér á bak við reiknaðar stærðir eins og þessar. Ég tel einfaldlega að þetta lýsi miklu skilningsleysi á eðli barnabóta og vaxtabóta og því meginmarkmiði beggja kerfa að létta undir með fólki sem býr við ákveðnar ytri aðstæður, er að koma upp börnum og er að koma sér upp húsnæði, og miðar að því auðvitað að auka ráðstöfunartekjur þessara heimila sérstaklega. Ég held að stefnubreyting ríkisstjórnarinnar í viðhorfi gagnvart þessum tveimur bótakerfum sé þess vegna ekki til sóma.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega mikið um aðra þætti þessa máls eins og þeir liggja fyrir. Ég minni þó aðeins á og verð að nefna nokkrum orðum framkvæmdir við ferðamannastaði. Það er rakið ágætlega í áliti minni hlutans hvernig varað var við því að sú upphæð sem ætluð var til framkvæmda við ferðamannastaði þegar frumvarp til fjárlaga var gert dygði engan veginn, ekki frekar en árið þar á undan. Það er með ólíkindum að sjá hversu illa ríkisstjórninni gengur að áætla fyrir þessum lið. Það sleifarlag sem ríkisstjórnin hefur tamið sér í umgengni við uppbyggingu ferðamannastaða er orðið alvarlegt. Enginn talar lengur um náttúrupassa eða sértæka gjaldtöku á ferðamenn. Það er áhyggjuefni að nú þegar við erum komin með nýja burðargrein í íslensk efnahagslíf, sem aflar meira en 30% af gjaldeyristekjum, höfum við glatað tækifærinu til þess að fella á hana eðlilega gjaldtöku á mestu uppgangsárum hennar til þess að láta hana greiða í sameiginlega sjóði og standa undir innviðafjárfestingu. Þvert á móti er stór hluti innviðafjárfestingar óhjákvæmilegur vegna aukins álags á vegi og flugvelli og ferðamannastaðina sjálfa. Þetta mun verða borið af almennu skattfé í samkeppni við önnur þjóðþrifaverkefni eins og uppbyggingu, heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Þar með erum við sem sagt enn á ný að búa til atvinnuveg á Íslandi sem stendur ekki með sjálfbærri gjaldtöku undir innviðafjárfestingu sem er nauðsynleg til að hann geti starfað. Pilsfaldakapítalisminn hjá þessari ríkisstjórn heldur því áfram. Alveg eins og menn glötuðu tækifærinu á sínum tíma þegar kvótakerfinu var komið á, sem var mikið heillaspor en menn glötuðu tækifærinu til að búa til gjaldtöku sem tryggði eiganda auðlindarinnar eðlilegt endurgjald fyrir afnot af henni, þá sjáum við nú nýja vaxandi atvinnugrein sem við höfum klikkað á að leggja á eðlileg gjöld til þess að hún standi undir nauðsynlegri innviðauppbyggingu.