145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu hans og sérstaklega fyrir það að hann kom í upphafi hennar inn á lyfjamálin og það að í tillögum frá meiri hluta hv. fjárlaganefndar er meðal annars komið með aukafjármagn inn til að mæta auknum útgjöldum vegna lyfjanotkunar á yfirstandandi ári, þar sem hún hefur verið meiri en reiknað hefur verið með.

Nú er í áliti minni hluta hv. fjárlaganefndar bent á það að þegar kemur að arðgreiðslum af Landsbankanum hafi þær verið vanmetnar gríðarlega og það gagnrýnt að áætlanirnar þar hafi ekki verið betri. Það er líka gagnrýnt í áliti minni hluta hv. fjárlaganefndar að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefði mátt þegar kemur að barnabótunum birta sviðsmyndir um það hvernig hækkanir á skerðingarhlutfalli bótanna koma út og dreifast milli þjóðfélagshópa. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Er það hreinlega svo að áætlanagerð hjá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra eða jafnvel hæstv. ríkisstjórn sé ábótavant? Sjáum við þess stað að áætlanagerðinni sé hreinlega ábótavant í þessu frumvarpi til fjáraukalaga?