145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili einfaldlega því mati með hv. þingmanni að núna séu aðstæður. Ég held reyndar að það sé þannig að ef kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fela í sér almenna hækkun lægstu launa þá sé ávallt skylda á löggjafanum að bregðast sérstaklega við, það sé einfaldlega svo að misvægi milli lægstu launa og bóta almannatrygginga sé óverjandi út frá siðferðilegum mælikvörðum. Fyrsta verk okkar í Samfylkingunni þegar við komum í ríkisstjórn 2007, þegar Jóhanna Sigurðardóttir settist í félagsmálaráðuneytið, var að hækka stórlega lægstu bætur og koma á framfærslutryggingu sem meira að segja á þeim tíma fór aðeins yfir lægstu laun og tryggði þá sem ekki höfðu neinar (Forseti hringir.) bótagreiðslur úr lífeyrissjóðum. Það var (Forseti hringir.) yfirveguð aðgerð vegna þess að það hafði myndast óásættanlegt bil milli lægstu launa og bóta almannatrygginga.