145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu hans. Mig langar sérstaklega að ræða við hann um þau málefni sem lúta að framkvæmdum við ferðamannastaði og hv. þingmaður gerði að umtalsefni í ræðu sinni.

Nú liggur það fyrir eins og kom fram í máli hv. þingmanns að hugmyndir ríkisstjórnarinnar um náttúrupassa steyttu á skeri á síðasta þingi, biðu skipbrot. Raunar taldi ég og margir fleiri hv. þingmenn að ætlunin væri að efna til einhvers konar þverpólitísks samráðs um tekjuöflun til stuðnings á ferðamannastöðum, en sú leið var ekki farin. Hins vegar töluðu þingmenn allra flokka á þeim tíma fyrir einhvers konar blandaðri leið, að skoðað yrði til dæmis að hækka gistináttagjald, möguleikar yrðu skoðaðir hvað varðar komu- og brottfarargjöld. Þetta yrði líka skoðað út frá hvernig þær tekjur dreifast á milli ríkis og sveitarfélaga í ljósi þess að mörg sveitarfélög hafa bent á að tekjur af ferðaþjónustu skili sér ekki til sveitarfélaganna sem þó þurfa að leggja í verulegan kostnað við uppbyggingu.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann — og er bent á það í ágætu nefndaráliti minni hlutans að það sæti auðvitað furðu að hér er annað árið í röð vanáætluð þörfin í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og ekki aðeins þarf að leggja til tillögur í frumvarpinu sjálfu heldur er að bætast við í meðförum fjárlaganefndar vegna innkomu af gistináttaskatti — hvaða leið hann sér í þessu. Hvernig getum við komið þessum málum í betri farveg? Við erum búin að hlýða á kynningu frá hæstv. iðnaðarráðherra, ráðherra ferðamála, þar sem búið er að setja upp stjórnstöð ferðamála, en eigi að síður upplifir maður hálfgert stjórnleysi, að minnsta kosti í þessari umræðu um fjárveitingar. Ég kalla því eftir sýn hv. þingmanns á þennan málaflokk.