145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir að máli skiptir að leitað verði leiða til að ná einhverri skynsamlegri lendingu í þessum málaflokki. Ég held að þarna sé líka vænlegt að horfa á tekjustofna ríkis og sveitarfélaga. Við erum að horfa upp á ákveðið misgengi í því hvernig staðan er annars vegar hjá ríki og hins vegar hjá sveitarfélögum. Við þurfum að skoða hvaða leiðir eru færar í því.

En örstutt í lokin, ef hv. þingmaður hefur tíma. Hann gerði barnabætur líka að umtalsefni í ræðu sinni og þá þróun sem er í raun og veru að verða, að þær nýtast fyrst og fremst tekjulægstu fjölskyldunum, ekki meðaltekjufjölskyldum. Þekkir hv. þingmaður til þess að til séu gögn til dæmis frá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum hvernig þeim málum er háttað þar þegar kemur að barnabótum? Ef ekki þá tel ég að minnsta kosti að mikilvægt væri fyrir þingið að láta vinna slíka úttekt á hvernig þau kerfi eru mismunandi milli ólíkra landa, því að við erum að sjá þetta kerfi (Forseti hringir.) breytast mjög hratt hér í gegnum fjárlög og fjáraukalög án þess kannski að hin pólitíska umræða, stefnubreytingarumræðan, hafi farið fram, herra forseti.