145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi þekki ég nú ekki til byggingaframkvæmda hér í borginni, en ég get útskýrt fyrir hv. þingmanni hvað ég á við með mannfjandsamlegu verklagi. Það er þegar Sjúkratryggingar Íslands ákveða að borga bara fyrir ákveðinn fjölda fólks vegna þess að það er einhver reiknuð stærð í áætlunum þeirra um það hvað mikið muni ganga út af lyfjum, eins og því lyfi sem mikið hefur verið í umræðunni og getur forðað ótímabærri blindu. Síðan er það bara vandamál aldraðs fólks og fólks sem er með sjúkdóma sem þetta lyf getur gagnast gagnvart að það stendur frammi fyrir því að missa sjónina vegna þess að Sjúkratryggingar eru búnar með kvótann sem þær ákváðu sjálfar að setja. Það var enginn stjórnmálamaður með lýðræðislegt umboð sem ákvað það. Það voru kontóristar úti í bæ sem ákváðu það. Ekki er sama verklag notað á spítalanum, fólki er ekki vísað frá sem kemur þangað með beinbrot vegna þess að búið er að klára kvótann í beinbrotum. Ekki er fólk látið deyja úr hjartaáfalli vegna þess að búið er að uppfylla kvótann í hjartaþræðingum. Þetta er mannfjandsamlegt verklag vegna þess að það er engin þörf á að gera fólk blint að óþörfu, hv. þingmaður. Það er það sem Sjúkratryggingar gera með blessun ríkisstjórnarinnar og greinilega formanns fjárlaganefndar. (VigH: Þetta eru stór orð.)

Varðandi barnabæturnar er það svo að þegar kerfið og skerðingarmörkin eru orðin þannig að barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. hjá fólki með eitt barn og skerðast að fullu við 409 þús. kr. þá er auðvitað orðið eitthvað mikið að vegna þess að bæturnar eiga ekki að vera til að bæta fólki upp tekjumissi. Það er misskilningur hjá hv. þingmanni. Það hefur ekkert að gera með það hvort tekjur fólks aukast eða ekki, (Forseti hringir.) bótunum er ætlað að mæta kostnaði vegna uppeldis barna. Ef (Forseti hringir.) tekjur aukast þá er líka (Forseti hringir.) verðþróun í gangi sem eykur kostnað fólks af því að eiga börn.