145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:44]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir þessa ræðu en ég held að ég hefði kosið og ég held að þjóðin hefði kannski haft meiri þörf fyrir að heyra það jákvæða í þessum fjáraukalögum í staðinn fyrir að endalaus sé klifað á því neikvæða. (Gripið fram í.)

Ég vil byrja á ljósleiðaranum. Hv. þingmaður veit það mætavel, ætti að vita það betur en ég þar sem hann hefur lengri reynslu á þessum stað, að fjáraukinn er vegna óvæntra útgjalda. Ljósleiðaramál, lagning ljósleiðara — ég get ekki séð með nokkru móti hvernig við getum flokkað lagningu ljósleiðara undir óvænt útgjöld.

Vegagerðin og það af hverju ég flýtti ekki þeirri framkvæmd, Norðfjarðargöngunum. Því miður réð ég því ekki. Ég get alveg tekið undir að það hefði sjálfsagt verið skynsamlegt en hjá þessari ríkisstjórn hefur verið lögð áhersla á að borga niður skuldir til að vinna í haginn fyrir framtíðina til að hafa þá meiri pening, meira fé til að fjármagna.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann einnar spurningar og það er hvort þessi ágæti landsbyggðarþingmaður sé sammála hv. þm. Björt Ólafsdóttur um að sjávarútvegurinn sé ekki að skila einni krónu til þjóðarinnar. Er hann sammála því?

Ég svara kannski spurningu hv. þingmanns um aldraða og öryrkja í síðara andsvarinu mínu, fer yfir það. En mig langar að fá að spyrja hv. þingmann einnar spurningar áður en ég svara fleirum frá honum um arðinn til þjóðarinnar.