145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni, meðlimi í fjárlaganefnd, fyrir að koma hingað í andsvar við mig. Ég vissi að ég gæti sært hann upp í andsvar og vona að fleiri stjórnarsinnar komi á eftir.

Hv. þingmaður sat í þeirri nefnd sem fjallaði um fjarskiptin í landinu og ljósleiðaravæðingu og segir að það geti ekki flokkast undir óvænt útgjöld. Það getur vel verið að það sé rétt miðað við fjárreiðulög og allt það, en ég vil benda á eitt atriði sem mótvægi við það sem hv. þingmaður sagði, sem í raun og veru talar gegn sér hvað það varðar. Eftir að hæstv. ferðamálaráðherra kom með vitleysisfrumvarpið um náttúrupassann og gafst upp á því áður en búið var að prenta það út og útdeila á Alþingi, sem betur fer þar sem þetta var mjög vitlaust frumvarp, þá samþykkti ríkisstjórnin í vor eftirfarandi og sagði: Ríkisstjórnin hefur samþykkt 850 millj. kr. framlag í ferðamannasjóð vegna þess að ríkisstjórnin gafst upp á að finna tekjuöflunarleið á ferðamenn sem við erum öll sammála um að leggja á, okkur greinir á um hvaða leið skal fara.

Þarna var það sem sagt tekið og ég bendi á að ríkisstjórnin samþykkir þetta ekki heldur Alþingi. Hv. þingmaður stuðlar að því að þarna eru teknar 850 milljónir inn í þetta en ljósleiðarinn er áfram með sínar 300 milljónir, sem hefur þær afleiðingar sem ég gat um áðan. Ég nefndi Þingeyjarsveit og ég gæti nefnt fleiri sveitarfélög í mínu kjördæmi vegna þess að þetta var eitt af þeim atriðum sem stóð hæst uppi í litlu sveitarfélögunum, þ.e. ljósleiðaravæðingin. En 300 milljónirnar sem ætlaðar eru í þetta eru sama upphæð og Þingeyjarsveit þarf að leggja í ljósleiðaravæðingu, það er allt og sumt. Eins og ég sagði, miðað við áætlunina sem hv. þingmaður stóð að því að gera tekur það 20 ár ef ekki verður aukið við. Ég svara þessu því um óvænt útgjöld svona: Ef ljósleiðari flokkast ekki undir óvænt útgjöld hvernig getur samþykkt í mars um framlag í ferðamannasjóð gert það?