145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:48]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að réttlæta eina vitleysu með annarri. En hv. þingmaður kom sér undan því að svara þessari einu spurningu sem ég kom að.

Varðandi aldraða og öryrkja get ég alveg tekið undir það að þeir eru ekki öfundsverðir af þeim kjörum sem þeir hafa í dag. Ég er alveg til í að taka þá umræðu að þeir fari undir kjararáð eins og aðrir. En kerfið í dag er þannig að þeir hækka um áramót samkvæmt einhverri vísitölu, þeir hækkuðu um 3,5% um áramótin 2014, um 3% núna í byrjun árs 2015 og hækkuðu um 9,7% núna um þessi áramót, sem eru samtals 16,6%. Þeir eru ekkert of sælir af því, ég skal taka undir það og ég skal stuðla að því að bæta þeirra kjör sem mest.

En mig langar að (Gripið fram í.) pumpa hv. þingmann um svar. Ég veit um sjávarútveginn, ég veit að sjávarútvegurinn greiddi árið 2014 tæpa 25 milljarða í veiðigjöld, aflagjöld og tekjuskatt, tekjuskatturinn var tæpir 9 milljarðar. En að koma svo í þennan stól og halda því fram að sjávarútvegurinn skili ekki krónu til samfélagsins finnst mér að fara á ansi lágt plan.

Þessi ríkisstjórn leggur áherslu á húsnæðismál. Hún er að setja 2,6 milljarða í félagslegt húsnæði og nýja húsnæðisbót í nýtt húsnæðisbótakerfi, 1,1 milljarð til aukins (Forseti hringir.) húsnæðisstuðnings við leigjendur. Ríkisstjórnin kemur því til móts við þá hópa (Forseti hringir.) sem minna mega sín. En mig langar að fá svar frá hv. þingmanni um hvort hann sé sammála því að sjávarútvegurinn skili 0 kr. til samfélagsins.