145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það verður spennandi að sjá hvort það verða fleiri þingmenn en hv. þingmenn Páll Jóhann Pálsson og Elsa Lára Arnardóttir sem greiða atkvæði með tillögu okkar í minni hlutanum um að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja afturvirkt með afgreiðslu á fjáraukalagafrumvarpinu.

En aðeins um samgöngurnar. Ég varð nefnilega fyrir nokkrum vonbrigðum. Ég hef ekki bundið miklar vonir við kosningaloforð ríkisstjórnarinnar eða efndir á þeim enda ekki bólað mikið á því. En hinu átti ég von á, að yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um vegalagningar í vor sem ættu að vera framkvæmdar í sumar stæðust, en þegar maður kom að þessum vegum í haust þá hafði ekkert gerst. Ég sé ekki betur en að í textanum frá meiri hluta fjárlaganefndar sé verið að finna alvarlega að vinnubrögðum innanríkisráðherra í málinu, að það hafi verið teknar ákvarðanir um að setja fjármuni í þessa ferðamannavegi á vettvangi ríkisstjórnarinnar og þar sé krafa um að þetta eigi allt að fara í gegnum samgönguáætlun og í gegnum þingið. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo í fljótu bragði að meiri hluti fjárlaganefndar sé að tugta innanríkisráðherra til og segja henni til syndanna um það með hvaða hætti hafi verið staðið að þessum fjárveitingum og þær séu teknar út í þessum breytingartillögum. Ég misskil þetta kannski, en þetta er að minnsta kosti mjög óvenjuleg framsetning, verð ég að segja.