145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar í ræðu minni að ræða nokkur smærri mál og nokkur stærri mál og ég ætla að byrja á þeim sem mega kallast smærri en vekja spurningar samt um það hvernig við hugsum vinnu við fjáraukalög.

Nú er það svo og það kemur vissulega fram í nefndaráliti meiri hlutans svo allrar sanngirni sé gætt að þar eru nefnd tvö mál sem efast má um að heyri undir fjáraukalög og ég er sammála því að það má efast um það. Það er annars vegar um Telenor, mál sem ég þekki mætavel frá fyrri tíð þegar ég þjónaði sem mennta- og menningarmálaráðherra. Þá var iðulega áætlað framlag í fjáraukalögum til þessa verkefnis sökum ákveðinnar óvissu um framtíð á dreifingu sjónvarpsútsendinga RÚV, en Telenor er sem sagt gervihnattaþjónusta sem hefur séð um það að koma efni ríkissjónvarpsins til bæja á afskekktustu svæðum landsins annars vegar og hins vegar til skipa á höfum úti.

Ég ætla að segja það að að sjálfsögðu hefði á mínum tíma átt að ganga frá þessum málum til lengri framtíðar en ég get þó mér til varnar fært að þá var fyrirhugað að breyta dreifikerfi Ríkisútvarpsins sem hefur verið til umræðu í tengslum við önnur mál. Það dreifikerfi átti sem sagt að leysa þetta fyrirkomulag af hólmi. En nú liggur fyrir, þremur árum seinna, að fyrirkomulagið er enn í gildi, Telenor-hnötturinn blessaður, og enn er verið að fjármagna það á fjáraukalögum sem er auðvitað ekki gott vinnulag. Ég held að það sé mjög mikilvægt varðandi þær efasemdir sem koma fram um þetta í nefndaráliti meiri hlutans að þessu sé fylgt eftir og einhver vinna sett í gang til að þessum málum verði fundinn framtíðarfarvegur. Við getum sagt sem svo að óháð stjórnmálaflokkum og meiri hlutum virðist ávallt hafa verið pólitískur vilji til að viðhalda þessum gervihnattaútsendingum og þá er mjög mikilvægt að finna eitthvert framtíðarfyrirkomulag þannig að við séum ekki að fá málið á okkar borð ár eftir ár. Ég gæti talað lengi um Telenor en ég ætla ekki að gera það, vildi bara nefna þetta sem dæmi um eitt af þeim undarlegu litlu málum sem koma á okkar borð og eiga ekki heima í fjáraukalögum, þau eiga heima í langtímafjármögnun.

Hitt málið sem meiri hluti fjárlaganefndar nefnir er auðvitað tónlistarskólarnir. Það vekur áhyggjur mínar að þó að við höfum verið að ræða þetta mál síðast í vor, þ.e. samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun tónlistarnáms sem er gríðarlega mikilvægt að við finnum einhverja lausn á, þá er núna kominn desember á árinu 2015 og við erum enn ekki farin að sjá frumvarp til laga um tónlistarmenntun. Við erum enn ekki farin að sjá framtíðarfyrirkomulag á þessum málum. Hér er verið að leggja til fjármuni í þetta mál og ég mun styðja þá fjárveitingu en það vekur mér áhyggjur að framtíðarfyrirkomulag liggi ekki fyrir. Vissulega fengum við ákveðnar upplýsingar um það í umræðunni sem við áttum í vor en síðan þá eru liðnir allmargir mánuðir og við erum með fjárveitingar í fjáraukalögum. Það sem ég óttast er að þetta verði líka í fjáraukalögum næst og það muni heldur ekkert framtíðarfyrirkomulag liggja fyrir þá.

Þetta ætti að vera okkur öllum áminning en sérstaklega þeim sem skipa meiri hlutann á hverjum tíma um að setja mál sem þessi í ferli með skipulegum hætti frá ársbyrjun þannig að við stöndum ekki alltaf í lok ársins með svona undarleg mál sem við vitum að er pólitískur vilji til að finna langtímalausn á en dúkka samt alltaf upp eins og einhver gosi við afgreiðslu fjáraukalaga og minna okkur á að þau eru óleyst. Þetta þurfa ekki að vera óleyst mál.

Þetta voru kannski þau smærri mál sem ég nefndi í upphafi þar sem ég leyfi mér að taka undir með meiri hlutanum og tel að vafi leiki á að heyri undir verksvið fjáraukalaga. Ég stend með þessum fjárveitingum en ég tel hins vegar algerlega óviðunandi að málin séu enn þá óleyst.

Þá komum við að stærri álitamálum. Í fyrsta lagi langar mig að nefna fyrirkomulagið á tekjuöflun fyrir ferðaþjónustuna í landinu sem ég gerði að umtalsefni áðan í andsvari mínu við hv. þm. Árna Pál Árnason. Ég vil taka undir það sem kemur fram í nefndaráliti minni hlutans þar sem lýst er undrun á því hversu illa ríkisstjórninni hefur gengið að áætla fjárframlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í fjárlögum, sérstaklega í ljósi þess að við höfum fengið á því kynningu frá hæstv. iðnaðarráðherra að nú sé búið að ná tökum á stefnumótun í ferðaþjónustu með því að stofna svokallaða Stjórnstöð ferðamála. Til hennar hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri á góðum launum en eigi að síður virðist ríkja algert stjórnleysi þegar kemur að þessum málaflokki. Ég verð að undrast það að á síðasta þingi var rætt það arfavonda mál, náttúrupassi, sem var af þeirri tegund sem gerist nú ekki oft á þingi að það virtist ekki eiga sér talsmenn í neinum flokki nema hæstv. ráðherra sem mælti fyrir málinu. Því máli var aldrei lokið en þó töluðu menn um að mikilvægt væri að skoða aðrar leiðir til að styrkja tekjustofna ferðaþjónustunnar. Síðan rann það út í sandinn og í staðinn er farið út í það að setja á laggirnar nýja ríkisstofnun, Stjórnstöð ferðamála, sem á að halda utan um stefnumótun til lengri tíma eins og raunar ýmis önnur batterí í kerfinu eiga að gera. Á meðan er ekki unnið að því að hækka til dæmis gistináttagjaldið. Í raun og veru virðist eins og gistináttagjaldið sé þyrnir í augum einhverra hér, kannski af því að það var sett á í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Gistináttagjald á Íslandi er auðvitað mjög lágt, það er 100 kr. Hvergi þar sem ég hef komið og gist á hefðbundnum gistihúsum eða hótelum borga ég lægra gistináttagjald en hér. Gistináttagjaldið nær ekki einni evru svo dæmi sé tekið og það væri hægur vandi að tvöfalda það og, eins og ég nefndi áðan í samtali mínu við hv. þm. Árna Pál Árnason, skipta tekjunum af því milli ríkis og sveitarfélaga.

Það er líka umhugsunarefni í allri þeirri umræðu sem við eigum hér um fjáraukalög, ýmsar forsendur fjárlaga og fjárlög hefur greinilega ekki áunnist neitt í því að endurskoða tekjustofna ríkis og sveitarfélaga. Við horfum upp á það að þar standa sveitarfélögin höllum fæti. Það er ekki auðvelt úrlausnarefni. Það er engin augljós leið þegar við skoðum tekjustofnana, en eitt af því sem sveitarfélögin hafa nefnt er sú staðreynd að tekjur af ferðaþjónustunni, sem er orðin stærsta útflutningsgrein okkar, skila sér ekki með nógu öflugum hætti til sveitarfélaganna. Það að hækka gistináttagjaldið eins og ég nefndi og skipta því væri t.d. ein leið til þess að fá að vísu ekki gríðarlega háa fjárhæð en þó slagar gistináttagjaldið, þessar 100 kr., samanlagt upp í 300 millj. kr. Með því værum við strax komin með byrjun á einhverjum aðgerðum til að styrkja sveitarfélögin en líka til að ná einhverri sátt um gjaldtöku af ferðaþjónustu eða tekjuöflun í kringum ferðaþjónustuna. Það hlýtur að liggja á því þegar við erum með fjáraukalög þar sem gert er ráð fyrir því að framlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, til staða sem eru í eigu eða umsjón ríkisins, hækkar í 850 millj. kr. sem er auðvitað engin smáupphæð. Síðan bætast við 12,2 millj. kr. í breytingartillögum við 2. umr. vegna hærri tekna af gistináttaskatti.

Minni hlutinn benti á þessa fjárþörf í umræðum um fjárlagafrumvarp ársins 2015 og nákvæmlega sama gerðist við umræðu um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2014. Ef við skoðum tilgang fjáraukalaga sem er sá að bregðast við óhjákvæmilegum málefnum, einkum ófyrirséðum atvikum, t.d. áhrifum nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar, þá er afskaplega einkennilegt að þetta eigi að kallast ófyrirséð. Ég hefði talið að meiri hlutinn hefði mátt taka þetta með þeim málum sem hann efast um að eigi heima undir fjáraukalögum í ljósi þess að ítrekað hefur verið bent á að þarna er fjárþörf fyrir hendi, þarna þarf að gera áætlanir fram í tímann að sjálfsögðu og það er ekki hægt að bíða eftir því að Stjórnstöð ferðamála taki við sér í þessum málum.

Ég tek undir það sem sagt var áðan að kannski væri meira ráð að Alþingi tæki þetta mál í sínar hendur og gerði ákveðnar breytingar til að hækka tekjur af ferðaþjónustu og til að við fengjum meiri fyrirsjáanleika í þau mál því að það er heldur ekki hægt að bjóða stærstu útflutningsgrein landsins upp á þá óvissu að verið sé að veita þessa fjármuni í gegnum fjáraukalög en ekki áætla fyrir þeim í fjárlögum hvers árs. Það er óvissa sem er ekki búandi við til lengri tíma fyrir ferðaþjónustuna og auðvitað hlýtur hún og við öll, við öll hér hv. þingmenn, að gera þá kröfu að horft sé til lengri tíma og gerðar áætlanir. Ég skil í raun og veru ekki að ríkisstjórnin og meiri hlutinn hafi kosið að hlusta ekki á það þegar minni hlutinn benti á þetta bæði fyrir fjárlög 2014 og fyrir fjárlög ársins 2015. Það er eiginlega óviðunandi heyrnarleysi.

Fjórða málið sem mig langar að nefna og margir hv. þingmenn hafa gert að umtalsefni í umræðunni um frumvarp til fjáraukalaga eru tillögur um barnabætur sem fjallað er um í nefndaráliti minni hlutans. Hér hefur verið bent á og sett í samhengi við fjárlagafrumvarpið að þróun barnabótakerfisins virðist vera með þeim hætti af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að þær eigi eingöngu að vera hugsaðar handa tekjulægstu hópunum, að þær eigi ekki að nýtast millitekjufólki í samfélaginu, foreldrum almennt. Minni hlutinn bendir á það að þarna hefði átt að taka úthlutunarreglur til endurskoðunar á árinu til þess að ríkissjóður hefði getað bætt afkomu þeirra sem minnst mega sín í samræmi við þær fjárhæðir sem Alþingi hefur samþykkt til verkefnisins en ekki fella fjárhæðirnar niður og afturkalla í ríkissjóð.

Það sem mér finnst áhugavert við þetta er að hér er búið, að því er virðist vera, að taka stefnumótandi ákvörðun, pólitískt stefnumótandi ákvörðun um það hvernig við högum barnabótakerfi okkar án þess að um það hafi farið fram sérstök umræða á Alþingi, án þess að við höfum samþykkt neina stefnu þar að lútandi eða breytt lögum heldur er þetta gert í gegnum fjárlög. Það er þess vegna farið að trufla mig æ meir í kringum þennan málaflokk en líka ýmsa aðra málaflokka.

Ég get nefnt annað dæmi sem birtist í fjáraukalagafrumvarpinu sjálfu sem lýtur að einkavæðingu og sameiningu Iðnskólans í Hafnarfirði undir Tækniskólann. Þar er verið að taka pólitískt stefnumótandi ákvarðanir og það er gert í gegnum fjárlög og fjáraukalög. Það var líka gert þegar við ræddum síðast breytt fjárframlög til framhaldsskóla þannig að settar voru hömlur á aðgang eldri nemenda að framhaldsskólum svo dæmi sé tekið. Við höfum líka séð slíkar ákvarðanir teknar um kostnaðarþátttöku sjúklinga. Mér finnst það vera allt of rík tilhneiging hjá ríkisstjórninni og meiri hlutanum að keyra í gegn mjög umdeilanleg mál, pólitísk umdeilanleg mál sem hafa gríðarlegar breytingar í för með sér og áhrif á kjör og hagi fjölda fólks, í gegnum fjárlagasúpuna sem svo eru greidd atkvæði um á nokkrum klukkutímum í þingsal þar sem allt rennur saman í einn graut og ekki er nokkur leið að átta sig á neinu. Almenningur í landinu er oft að átta sig á afleiðingum af þeim ákvörðunum sem teknar eru í fjárlögum vikum og mánuðum eftir að þær ákvarðanir hafa verið teknar. Og við sem störfum í minni hluta á Alþingi erum svo gagnrýnd fyrir að reyna að efna til umræðu um fjáraukalög, um fjárlög. Við höfum verið gagnrýnd fyrir það á síðustu árum að við séum að tala allt of mikið um þessi frumvörp en staðreyndin er bara sú að í gegnum þau er verið að lauma alls kyns pólitískri stefnumótun sem hefur ekki verið rædd á neinum öðrum vettvangi. Þetta finnst mér að við sem störfum á þingi ættum virkilega að ræða. Meðan þessu er ekki breytt þá höldum við auðvitað áfram að ræða þessi mál og ég gæti trúað að umræða um þau ætti bara eftir að lengjast ef þetta er sú taktík, ef við getum notað það erlenda orð, sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja nota til að koma stefnumálum sínum í framkvæmd í stað þess að gera það með öðrum hætti.

Ég viðurkenni það að stundum þarf auðvitað ekki lagabreytingar til að gera svona hluti En þó er oft verið að breyta ansi mörgum lögum annars vegar í ýmsum forsendum fjárlaga og hins vegar er það svo að ráðherrar geta átt frumkvæði að umræðum um ýmis pólitísk stefnumarkandi mál án þess að þeim fylgi lagabreytingar ef þau hafa áhrif á hag almennings eins og við sjáum t.d. með breytingunum á barnabótakerfinu. Ég held að það sé eðlileg krafa af hálfu þingsins að fá vandað yfirlit yfir það hvernig þessum málum er háttað annars staðar á Norðurlöndum, fyrirkomulagi barnabóta svo dæmi sé tekið, þannig að við getum borið saman hvert við viljum stefna með okkar kerfi og hvert aðrar þjóðir hafa farið með sín kerfi og hvort við teljum það ásættanlega þróun. Mér finnst að alla þessa umræðu þyrftum við að fá tíma til að taka og mér finnst eðlilegt að við óskum eftir slíkum gögnum í þessari umræðu þannig að hægt sé að bera saman hið íslenska barnabótakerfi og breytingarnar sem hafa orðið á því á undanförnum áratug og hvernig þær koma heim og saman við breytingar í öðrum löndum. Við höfum rætt um búferlaflutninga frá landinu, sem mönnum kemur nú ekki saman um hvort séu staðreynd eða ekki, og það ætti að vera okkar hagur að vita hvernig er búið að barnafjölskyldum í landinu til að geta svarað fyrir það hvort við teljum að það hafi áhrif á búferlaflutninga frá landinu.

Frú forseti. Tíminn flýgur hratt þegar stór mál eru undir og ég ætla að nota síðustu mínúturnar til að ræða breytingartillögur minni hlutans sem lúta að tekjum öryrkja og eldri borgara, sem ég styð að sjálfsögðu eindregið og ég vona að hv. þingmenn meiri hlutans muni skoða með opnu hugarfari. Hv. þingmenn meiri hlutans hafa bent á að þessir hópar séu vissulega að fá ákveðnar hækkanir og sagt að þær hækkanir séu meiri en þær hafa verið undanfarin ár og það er gott og vel. En við megum ekki gleyma því að prósentuhækkun segir ekki alla söguna. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur öryrkja sem býr einn og fær greidda heimilisuppbót eru 187.507 kr. samkvæmt nýlegri álitsgerð sem Öryrkjabandalagið fékk hagfræðinga til að vinna fyrir sig og miðast við árið 2014. Ef öryrki býr með öðrum aðila sem er 18 ára eða eldri eru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur 172 þús. kr. Ef við tökum hóp eldri borgara þá liggur það fyrir í svari frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra við fyrirspurn frá hv. varaþingmanni Samfylkingarinnar, Ernu Indriðadóttur, að 70% eldri borgara eru með tekjur undir 300 þús. kr. sem eru þau lágmarkslaun sem verkalýðshreyfingin hefur verið að berjast fyrir á vinnumarkaði. Þegar við leggjum mat á það hvað það kostar að vera til, og það var gert í þessari sömu álitsgerð þá kemur fram að barnlaus einstaklingur sem býr einn í eigin húsnæði — og við munum að hann fær 187.507 kr. — það kostar hann 348.537 kr. að lifa, að vera til. Hér er verið að tala um ráðstöfunartekjur og fyrir skatt mundi það útleggjast sem 482.846 kr.

Ég held að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn, alveg sama hvaða flokki við tilheyrum, hvort við teljum þetta ásættanleg kjör fyrir fólk sem ekki getur valið sér hlutskipti því að það velur sér það enginn að verða öryrki, það velur sér það enginn að verða eldri borgari. Þótt við óskum þess auðvitað öll að verða gömul þá veljum við ekki það hlutskipti heldur. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir hv. þingmenn, sama hvaða flokki þeir tilheyra, að þetta séu þau kjör sem þessum hópum eru búin. Og þótt tekjur þeirra hækki frá því sem nú er þá breytir það ekki því að þetta eru smánarlega lágar tölur. Það er enginn ofhaldinn af þessum kjörum. Það kemur ekki á óvart að í skoðanakönnun sem var kynnt um leið og þessi álitsgerð kom í ljós að meira en 90% svarenda sögðust ekki treysta sér til að lifa af 172 þús. kr. á mánuði. Það hefði ég sagt líka hefði ég verið spurð. Og það ætti að vera metnaðarmál okkar að bæta kjör þeirra og þess vegna tek ég undir með minni hlutanum sem leggur bara þá breytingu til að öryrkjar og eldri borgarar (Forseti hringir.) fái kjör sem eru a.m.k. sambærileg við þau kjör sem þeir búa við sem hafa í raun lægstu kjörin í samfélaginu og þær kjarabætur verði afturvirkar (Forseti hringir.) eins og gert er ráð fyrir á almennum markaði. Þessir hópar hafa ekki valið sér hlutskipti sitt og það á að vera sómi okkar að búa sæmilega að þeim.