145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:23]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tel að hv. þingmaður hafi komið inn á veigamikið atriði þegar hún nefnir það og við horfum upp á það í æ ríkari mæli að teknar eru mjög stefnumarkandi ákvarðanir í gegnum fjárlög í mörgum málum, t.d. eins og í menntamálum. Það er kannski sérstaklega þar sem við höfum horft upp á það undanfarið, en í fleiri málaflokkum líka, þar sem verið er að taka stefnumarkandi ákvarðanir í gegnum fjárlög. Þess vegna hlýtur það að vera eðlilegt að talað sé lengi um fjárlög og við þurfum kannski að rýna fjárlögin þess vegna mun betur en gert hefur verið hingað til.

Kannski má segja að þetta sé stjórnmálamönnum að kenna að því leytinu til að hér á árum áður voru samþykkt lög sem veita ráðherrum og ríkisstjórn mjög mikið vald. Þetta á við í menntamálum og heilbrigðismálum. Ég er hrædd um að við eigum eftir að horfa upp á nánast einhvern hrylling þar ef ég má orða það svo.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann: Ég tel að þær 60 milljónir sem eru í fjáraukalögunum og eiga að fara til tónlistarnáms ættu að leysa þann vanda sem hefur verið í Reykjavík og við töluðum mikið um í vor og fyrr í vetur, það ætti að leysa hann. Er það þá ekki rétt hjá mér líka að til að þau vandræði komi ekki upp aftur þurfum við núna að fá frumvarp frá ráðherra um hvernig á að haga þeim málum í framtíðinni? Hefur þingmaðurinn fleiri hugmyndir um það en ég (Forseti hringir.) hvort slíkt frumvarp sé á leiðinni og hvenær við getum vænst þess að sjá það í þingsal?