145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Mig langar aðeins að spyrja hana út í varðandi það sem hún sagði um hlutverk fjáraukalaga. Ég held að við séum sammála því og ég held að allir séu sammála því, bæði í minni hluta og meiri hluta, að við viljum nýta fjáraukalögin eins og lög gera ráð fyrir. En það virðist vera freistandi að bæta við, það liggur við sama hverjir eiga í hlut. Alltaf hlaðast inn á fjáraukalög alls konar liðir sem ekki eiga heima þar. Reyndar voru fjáraukalög mjög lítil eftir hrun, og var það kannski að einhverju leyti vegna þess að það voru hreinlega ekki til peningar, en kannski var bara styrkari efnahagsstjórn, ég skal ekki um það segja.

Nú munum við innleiða ný lög um opinber fjármál þar sem fjáraukalög verða svo að segja úr sögunni. Ekki er gert ráð fyrir þeim. Það verður bara varasjóður fyrir allt sem er ófyrirséð, eins og eldgos og annað slíkt, en svo verður 2% svigrúm hjá ráðuneytum og ráðherrum varðandi málaflokkana.

Af því að hv. þingmaður hefur verið ráðherra langar mig til að vita hvort hún telji að það geti verið að þau 2% sem ráðherrann hefur fyrir málaflokkinn, eins og ef framhaldsskólar væru einn málaflokkur, séu í rauninni nægileg til að geta brugðist við því sem upp getur komið. Þetta er áskorun, þetta eru algerlega ný vinnubrögð, en við viljum færa okkur úr því að vera með fjáraukalög. Við þurfum alltaf að samþykkja óvæntar fjárheimildir, en getum við kannski séð fyrir okkur framtíð þar sem fjáraukalög heyra fortíðinni til vegna þess að ráðherrar geta stýrt með þessum varasjóði sem þeir hafa, að þeir muni einhvern veginn geta stýrt þessu fram og til baka?