145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[17:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég byrja þar sem frá var horfið í síðustu orðaskiptum héðan úr í ræðustól, sem lutu að þeim lagabreytingum sem verða á dagskrá síðar á þessum fundi eða þeim næsta, um frumvarp til laga um opinber fjármál og þær breytingar sem verða á meðhöndlun ríkisfjármálanna í þinginu með tilkomu þeirra. Það verður spennandi því að við megum sannarlega við framförum í fjárlagavinnslunni bæði á vettvangi ríkisstjórnarinnar og þingsins. Ég tek undir að það er ákaflega mikilvægt að styrkja sjálfstæði þingsins í þeirri vinnu því að það hefur í allt of ríkum mæli verið stimpilpúði fyrir þær ákvarðanir sem teknar eru af ríkisstjórn og hefur haft fremur lítið sjálfstætt aðhald með framkvæmdinni.

Það sem mun skipta máli er meðal annars efnahagsskrifstofa af einhverju tagi. Hún getur auðvitað verið staðsett í þinginu sem leggur mat á þá þætti. Hitt hlýtur líka að vera nærtækt í umræðunni, hvort ekki sé full ástæða til þess að endurvekja Þjóðhagsstofnun þannig að þingið og um leið aðrir í samfélaginu hafi aðgang að óháðri fagstofnun sem leggi sjálfstætt mat á hagþróunina og geti unnið að skýrslugerð, áætlunum, metið áætlanir stjórnvalda og gefið hlutlaust en vel grundað álit þar á. Það er út af fyrir sig seinni tíma mál.

Það sem er ánægjulegt að sjá við þetta fjáraukalagafrumvarp er að frumjöfnuðurinn er að aukast. Hann er hins vegar að aukast af röngum ástæðum. Hann er í rauninni einvörðungu að aukast vegna tekjuhliðarinnar. Það er því miður enn sem fyrr um að ræða verulega mikla útgjaldaaukningu frá því sem gert var ráð fyrir. Það er ekki ráðdeildarsemi í rekstrinum sem skilar þessum aukna frumjöfnuði heldur ýmsir tilfallandi ávinningar. Kannski er full ástæða til þess að farið sé betur yfir það með hvaða hætti ýmsir þættir eru áætlaðir við fjárlagagerðina í aðdraganda fjárlagaársins. Til dæmis eru arðgreiðslur sannarlega ekki ýkja vel áætlaðar miðað við þær tölur sem við sjáum í því efni í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Það er mikið og stórt verkefni að takast á við að fylgja því eftir að áætlanagerðin sé viðunandi. Það er miður að við skulum sjá sömu liðina í því efni ár eftir ár.

Annar þáttur, sem er sannarlega ástæða til þess að kalla eftir að betur sé áætlaður í fjárlögum en gert hefur verið og er í raun og veru bara verið að taka inn á fjáraukalögin aftur og aftur, eru framkvæmdir við ferðamannastaði sem eru ákaflega brýnar en þær eru hins vegar býsna fyrirsjáanlegar og full ástæða til að áætlanir um þær og framlög til þeirra séu skýr og ákvörðuð í fjárlögum og á grundvelli faglegra áætlana og auðvitað sé líka tekið á tekjuöflunarþættinum í tengslum við þær framkvæmdir. Við höfum í raun og veru sett allt of lítið í þessar framkvæmdir. Það hefur ekki síst mátt rekja til þess vandræðagangs sem verið hefur hjá ríkisstjórnarforustunni um tekjuöflunarleiðir í þessu efni. Hér kom fram fyrr í umræðunni sú einfalda tillaga hjá hv. þm. Kristjáni L. Möller að gistináttagjaldið yrði hækkað til þess að standa straum af þessum kostnaði. Það er sannarlega býsna einföld leið að hækka gildandi tekjustofn og full ástæða til þess að láta þann mikla fjölda ferðamanna sem nú eru að skila sér hingað til landsins greiða eigi síðar en strax fyrir nauðsynlega uppbyggingu. Það er til vansa að þetta sé ítrekað á ferðinni í fjáraukalögum. Þetta á einfaldlega að vera áætlað og ákveðið fyrir fram. Þetta eru ekki ófyrirséð útgjöld á neinn hátt.

Tengt ferðamannastöðunum er ástæða til þess að nefna sérkennileg framlög til vegamála. Kannski er ástæða til þess að kalla eftir því að formaður fjárlaganefndar, formaður þingflokks Framsóknarflokksins eða einhverjir aðrir sem þekkja til þess þáttar útskýri hvað þar er á ferðinni. Það háttaði svo til, að ég hygg, að á vordögum tilkynnti ríkisstjórnin um ófyrirséð og aðkallandi útgjöld sem væru vegaframkvæmdir við nokkra ferðamannavegi, sem átti út af fyrir sig ekki að koma neinum á óvart. Það voru vegir sem lengi lá fyrir að gott væri að bæta úr. Það er vegurinn um Kjósarskarð, það er vegurinn um Uxahryggi, sem styttir og bætir mjög samgöngur milli Þingvalla og Borgarfjarðar og þar með í rauninni Suðurlands og Borgarfjarðar, og síðan vegurinn um Kaldadal, sem opnar möguleika fyrir nýjan ferðamannahring að Þingvöllum og yfir í Borgarfjörð og aftur um Kaldadal, og loks Dettifossvegurinn ef ég man þetta rétt. Framkvæmdir sem átti að ráðast í við þessa fjóra vegi í sumar voru upp á annan milljarð króna.

Mér er ekki alveg ljóst af því sem hér er lagt fram í breytingartillögum hvernig er farið með þær fjárveitingar sem ríkisstjórnin tilkynnti um í sumar. Ég þykist að minnsta kosti vita að sumum af þessum framkvæmdum hafi einfaldlega ekkert orðið úr, eins og leiðinni yfir Uxahryggi og ég held líka Kaldadal og kannski líka um Kjósarskarð og Dettifossveg. Það er miður vegna þess að ferðamönnum mun að því er virðist fjölga á næsta ári enn meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þess vegna brýnt að byggja upp þessa innviði. Maður spyr sig: Hvað veldur því að ekki var ráðist í það sem ríkisstjórnin taldi einboðið að fara í síðastliðið vor og átti að gera í sumar?

Ég vil líka í tengslum við þetta spyrja út í textann frá meiri hluta fjárlaganefndarinnar þegar virðist vera farið í lækkun á framlögum til Vegagerðarinnar en ríkisstjórnin hefur ekki staðið fyrir miklum nýframkvæmdum í vegamálum nema síður sé. Hvernig á að skilja það þegar kallað er eftir því að þessar framkvæmdir eins og aðrar eigi að fara í hefðbundið ferli og hefðbundið mat? Er meiri hluti fjárlaganefndar að segja að ríkisstjórnin hafi rasað um ráð fram, það hafi verið ótímabært að taka þessar ákvarðanir? Var hætt við sérstaklega að fara í einhver af þessum verkefnum? Hvers vegna var það? Er verið að segja innanríkisráðherranum að slíkar samgönguframkvæmdir þurfi að fara í samgönguáætlun og fara í gegnum vinnu í samgöngunefnd þingsins áður en þær geti komið til greina á fjárlögum? Eða hvernig víkur þessu við?

Ég hef því miður ekki getað farið nægilega ofan í fylgigögnin með þessu viðamikla frumvarpi til þess að glöggva mig nægilega vel á þessu og þætti vænt um ef einhver fulltrúi meiri hlutans í fjárlaganefnd treystir sér til að útskýra það hver staðan er á þessum mikilvægu vegum fyrir ferðaþjónustuna og hvernig þessari ákvarðanatöku er háttað og hvort einhver átök séu innan stjórnarliðsins um hvort það ætti að fara í þessar framkvæmdir eða hvernig það lægi. Ýmsir aðilar í ferðaþjónustu skipulögðu sig auðvitað út frá þessum samgöngubótum og gerðu ráð fyrir því að þær kæmu inn og þurfa að breyta áætlunum sínum ef mönnum hefur ekki verið full alvara þegar þeir tilkynntu um að þessir vegir yrðu malbikaðir. Það er mikilvægt fyrir þá sem eiga hagsmuni undir því að fá þær upplýsingar strax fram.

Virðulegi forseti. Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því sem við sjáum bæði í vaxtabótum og barnabótum. Ég harma það að menn nýti ekki það svigrúm sem er að verða í ríkisrekstrinum, eftir þær aðhaldsaðgerðir sem farið var í á síðasta kjörtímabili og tekjuöflunarákvarðanir sem þá voru teknar, til þess að bæta hag annars vegar þeirra heimila sem eru með húsnæðislán og hins vegar barnafjölskyldna. Þar er viðmiðum bæði um tekjur og eignir haldið að mínu mati allt of stífum þannig að fólk með tiltölulega óverulegar tekjur, að minnsta kosti ekki háar tekjur, er að detta út úr barnabótakerfinu allt of fljótt. Það er full ástæða að taka þessar fjárveitingar ekki niður sem því nemur heldur nýta það fé sem hafði verið gert ráð fyrir til þessara málefna til að láta barnabæturnar ná til stærri hóps en raunin er núna. Einkanlega í vaxtabótunum er hópurinn náttúrlega bara að minnka og þannig er verið með annarri hendinni að taka það sem látið er með hinni. Ég hygg að þær lækki á milli fjárlagaársins í ár og næsta árs um einar 1.100 millj. kr. eða 1,1 milljarð sem er stór hluti af þeim fjármunum sem ríkisstjórnin er svo með hinni hendinni að boða að hún ætli að setja í húsnæðismál. Það er merkilegt að sækja fjármuni í þann rann.

Við 2. umr. um fjáraukalögin vil ég fyrst og síðast fara yfir það sem lýtur að almannatryggingum. Við höfum verið að fylgjast með því í ár að margra ára uppbyggingarstarf í landinu, einkanlega í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur sem betur fer verið að skila okkur mikilvægum efnahagsávinningi. Ýmsar framkvæmdir í atvinnumálum sem þá var samið um hafa farið af stað og enn er unnið að ýmsum framkvæmdum í vegamálum sem þá voru ákveðnar og sá hagvöxtur sem verið hefur óslitið frá því snemma á síðasta kjörtímabili er að skila sér fyrir ríkissjóð í afkomu sem batnar ár frá ári. Því miður gætir minna aðhalds í ríkisfjármálunum, einkanlega á tekjuhliðinni, núna á þessu kjörtímabili. Þetta hefur sem betur fer líka skilað sér í kjarabótum til stórra hópa í landinu en þeir hópar fá þær kjarabætur frá síðastliðnu vori, 1. maí, flestir hópar á almennum markaði, og jafnvel enn þá fyrr eins og í tilfelli alþingismanna og ráðherra sem fá kjarabætur alla leiðina aftur til 1. mars, hygg ég að ég fari rétt með. Þegar þetta er launaþróunin í landinu skyldi maður ætla að aldraðir og öryrkjar, þeir hópar sem búa við lökustu kjörin í landinu, yrðu ekki látnir sitja eftir, að þeir fengju ekki minni hækkanir en fólk sem hefur miklu betri tekjur og miklu betri ráð heldur fengju þeir að minnsta kosti sömu hækkanir í prósentum á sama tíma.

Það voru óneitanlega vonbrigði hér fyrr í dag þegar ekki var hægt að skilja hæstv. forsætisráðherra öðruvísi en svo að það stæði ekki vilji til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans að hækka kjör aldraðra og öryrkja frá sama tíma og menn höfðu ákveðið að hækka kaup alþingismanna og ráðherra. Það er svo hrópleg ósanngirni, að ég segi ekki sérgæska, að því verður auðvitað mótmælt hér það sem eftir lifir þessa haustþings og fjárlagavinnunnar og fjáraukalagavinnunnar. Við munum kappkosta að reyna að telja sem flesta stjórnarliða á okkar band í því að gera þá breytingu að þessir hópar fái sömu hækkanir frá sama tíma og annað fólk í landinu. Það hlýtur að vera í huga hvers manns sjálfsögð sanngirnis- og réttlætiskrafa. Kostnaðurinn við það er sannarlega allnokkur. Hann er um 6,6 milljarðar kr. þegar allt er talið. Það verður að hafa í huga að hér er um að ræða tugþúsundir Íslendinga, afkomu þeirra, og sannarlega mundu slíkar fjárveitingar skila sér í ýmsu til ríkissjóðs, afleiddum tekjum og öðru þess háttar, svo það yrði ekki hreinn kostnaður.

Það er tiltölulega hægt um vik að benda á ýmsar fremur auðveldar tekjuöflunarleiðir ef menn vilja ekki minnka afganginn á yfirstandandi ári, sem væri sannarlega valkostur. Ein þeirra er til dæmis að framlengja auðlegðarskattinn. Það mundi jafnvel duga að framlengja auðlegðarskattinn helmingi lægri en hann var þegar þessi ríkisstjórn tók við. Sem kunnugt er greiddu 5 þús. ríkustu heimilin í landinu, af 125 þús. heimilum í landinu, þennan sérstaka skatt til þess að létta undir á erfiðum tímum í ríkisfjármálum. Það mælir í sjálfu sér ekkert á móti því að það sé gert áfram á meðan við erum í gjaldeyrishöftum og enn þá frekar ef tekinn væri bara hálfur sá skattur sem tekinn var á síðasta kjörtímabili. Það virðist vera ríkisstjórninni mikið forgangsmál að lækka skatta á þennan hóp. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég tel engan veginn tímabært að lækka skatta á ríkasta fólkið í landinu svona verulega ef menn hafa ekki efni á að leiðrétta laun aldraðra og öryrkja frá sama tíma og annarra. Það hlýtur að koma á undan. Það að kjör aldraðra og öryrkja hækki á sama tíma og aðrir í landinu hlýtur að koma langt framar hinu, að lækka skatta á 5 þús. ríkustu heimilin í landinu þannig að auðlegðarskatturinn sé algjörlega felldur út. En vilji menn það ekki — það eru auðvitað ýmsir máttarstólpar í stjórnarliðinu sem lækka skattana sína mikið með því að hverfa frá auðlegðarskattinum — þá er hægastur vandinn að benda á veiðigjöldin og út af fyrir sig auðlindagjöld í víðara samhengi, ef vilji væri til. Það hefur verið gengið óhóflega langt fram í því að hlífa stórútgerðinni sem skilar myljandi hagnaði af einkarétti á hagnýtingu sameiginlegrar auðlindar. Hægur vandi væri að fjármagna hið sjálfsagða réttlætismál, hækkun á bótum aldraðra og öryrkja frá sama tíma og hjá öðrum hópum, með því að hækka auðlindagjöld.

Ég verð að segja að eftir þær yfirlýsingar sem menn gáfu í aðdraganda kosninga um kjör þessara hópa og með hvaða hætti þeir ættu að vera í forgangi þá trúi ég ekki öðru en að menn endurskoði þennan þátt í stjórnarstefnunni og hlusti á það sjálfsagða ákall um jafnræði og sanngirni, sem kemur frá eldri borgurum um land allt og frá öryrkjum sömuleiðis, sem fellst í þeim einfalda hlut að þeir fái kauphækkun frá sama tíma og við hin.