145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:04]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það megi til sanns vegar færa að hér sé aftur tekið til við að gæla við brauðmolakenninguna sem einkanlega Sjálfstæðisflokkurinn og Hannes Hólmsteinn Gissurarson og fleiri menn þaðan úr litrófi stjórnmálanna töluðu fyrir fyrir hrun en virðist vera orðin eins konar trúarsetning hjá Framsóknarflokknum í seinni tíð, a.m.k. forustumönnum hennar eins og forsætisráðherra og hv. formanni fjárlaganefndar, enda hefur sá flokkur færst mjög langt til hægri eins og við þekkjum.

Varðandi veiðigjöldin þá blasir við að þar er um að ræða mikinn umframhagnað. Auðvitað eiga sjávarútvegsfyrirtæki að vera rekin með hagnaði og þar á að vera gott að starfa og gott að fjárfesta en sú grein skilar hagnaði langt umfram aðrar greinar sem stafar af því að það eru verðmæti í sjálfu sér að hafa einkarétt á því að hagnýta sameiginlega auðlind okkar. Það er sjálfsagt mál ef við eigum ekki peninga til að hækka kaup aldraðra og öryrkja frá sama tíma og annarra í landinu að láta útgerðina borga aðeins meira. Þótt hún væri látin borga þetta væri hún eftir sem áður rekin með bullandi hagnaði og væri enn þá rekin með meiri hagnaði en tíðkast í öðrum greinum.

Ég er raunar þeirrar skoðunar að best færi á því að veiðigjöldin ákvörðuðust einfaldlega á markaði þar sem útgerðarmenn byðu í heimildirnar og þannig væri í frjálsum viðskiptum á uppboði ráðið til lykta hvað væri eðlilegt að þeir skiluðu í sameiginlega sjóði á hverjum tíma. En forgangsmál hlýtur að vera að aldraðir og öryrkjar fái hækkun frá sama tíma og aðrir í landinu.