145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hækka þegar borð er fyrir báru, segir þingmaðurinn. Það er auðvitað sjálfsagt að gera þá kröfu en rétt er að vekja athygli á því að þegar ekki var borð fyrir báru árið 2011 í ríkisstjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur voru laun þessara hópa hækkuð á miðju ári frá sama tíma og annarra hópa við miklu erfiðari aðstæður í ríkisfjármálum heldur en nokkurn tíma eru núna. Þess vegna vekur það undrun að stjórnarflokkarnir skuli ekki sjá sóma sinn í því að gera þetta núna.

Um orð hv. þm. Páls Jóhanns Pálssonar þess efnis að sjálfsagt væri að fela þetta kjararáði, þá er eflaust miklu skárra að fela ákvörðun launa aldraðra og öryrkja kjararáði en ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þess vegna væri ég alveg tilbúinn til að styðja það að meðan sú ríkisstjórn sæti við völd þá væri kjararáði falið að úrskurða um þetta. En ég tel þó að best fari á því að alþingismenn ákveði árlega við afgreiðslu fjárlaga við atkvæðagreiðslu hér í salnum hver skuli vera lágmarkslaun aldraðra og öryrkja í landinu. Það höfum við dæmi um í nágrannalöndunum. Það eru tugþúsundir einstaklinga sem eiga framfærslu sína að verulegu leyti undir þeim pólitísku ákvörðunum sem hér eru teknar. Ég held að menn þurfi einfaldlega að hafa þrek til að taka þær ákvarðanir hér í salnum og standa við þær og forsvara þær. Til þess þarf sú ákvarðanataka að vera skýr og ótvíræð og augljós hverjum manni.