145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að þær upphæðir sem verið er að leggja á ríkissjóð vegna Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eru í raun og veru reikningurinn fyrir náttúrupassaklúðrið vegna þess að á öllum þeim tíma sem liðinn er af kjörtímabilinu hefur ekki tekist að koma sómasamlegri mynd á gjaldtöku af ferðamönnum. Fyrri ríkisstjórn fyrirhugaði hækkun á virðisaukaskatti sem hefði verið einfaldasta og besta skrefið því að það er mikilvægt um tekjuöflun ríkisins almennt að það séu tiltölulega fáir en stórir tekjustofnar sem skila tekjunum og virðisaukaskattur er auðvitað langöflugasta tækið til að skila ríkissjóði tekjum, einfalt og gott tæki.

Gallinn við gistináttaskattinn var alltaf sá hversu lágur hann er. Hann er aðeins 100 kr. og skilar óverulegum tekjum í ríkissjóð, hleypur á hundruðum milljóna og í samhengi ríkissjóðs eru það óverulegar tekjur. Tekjustofn þarf eiginlega að skila helst milljörðum til að það taki því að tala um hann. En ef ekki er vilji til að fara virðisaukaskattsleiðina þá er sú leið fær að hækka gistináttaskattinn og það má gera í áföngum ef það er til að hjálpa greininni við að innleiða slíkar breytingar. Ég hefði þó haldið að það mætti hækka hann umtalsvert frá því sem nú er með tiltölulega skömmum fyrirvara. Gistináttaskattur er innheimtur um víða veröld og er tiltölulega gott að hafa eftirlit með og innheimta en ég veit ekki hversu góð hugmynd það er að fara að deila honum með sveitarfélögum. Ég held að best sé að tekjuöflunin sé á einni hendi þó að sveitarfélögin gætu notið góðs af því í formi styrkja.