145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:16]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið þannig að gistináttagjaldið hefur runnið í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og síðan hafa menn eftir einhverjum verkferlum metið það hvar þörfin er brýnust. Á sama tíma heyrum við í fjárlaganefnd kröfur frá sveitarfélögum um auknar skatttekjur og það eru kröfur frá stærri bæjum um að fá hlutdeildina í gistináttagjaldinu frekar en að það renni bara til sveitarfélagsins því að kostnaður verði af ferðamönnum. En á hinn bóginn má segja að átroðningurinn er mjög gjarnan úti á landi í minni sveitarfélögum þar sem ferðamenn skilja í raun mjög lítið eftir sig. Ég skil hv. þingmann þannig að honum finnst í raun gott að tekjurnar renni í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og sé útdeilt þaðan.

Síðan langar mig að spyrja út í breytingartillögu minni hlutans sem hv. þingmaður ræddi áðan og sagðist jafnvel telja að það væru þingmenn í meiri hlutanum sem hefðu gefið í skyn að þeir væru sammála henni. Við sjáum að það er tekjuafgangur á árinu þannig að það er hægt að fjármagna þessar hækkanir. Er hv. þingmaður bjartsýnn á að okkur takist að snúa nógu mörgum þingmönnum til að ná þessari mikilvægu kjarabót í gegn fyrir ellilífeyrisþega og öryrkja?