145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þingmaður veit þá er sá sem hér stendur þingmaður Reykjavíkur og hefur litið á sig sem talsverðan Reykjavíkurþingmann, er fyrrverandi borgarfulltrúi í borginni og hefur oft talið að Reykvíkingar mættu njóta meiri hlutdeildar í þeim ákvörðunum sem hér eru teknar.

Ég verð þó að segja um gistináttagjald að mér þætti ekki sanngjarnt að það rynni til sveitarfélaganna. Það er sannarlega þannig að hótelgistingarnar eru langflestar í Reykjavík og tekjurnar mundu þá að mestu leyti renna til borgarinnar en ferðamennirnir fara í dagsferðir út á Vesturland eða út á Suðurland og koma aftur inn að kvöldi og það þarf að ráðast í framkvæmdir við ferðamannastaðina þar. Ég held að það sé ekki endilega svo góð samsvörun á milli staðsetningar á hótelherbergjum annars vegar í sveitarfélögum og hins vegar fjölda fjölsóttra ferðamannastaða í þeim. Ég held að það fyrirkomulag að láta gjaldið renna í miðlægan sjóð og styrkja síðan verkefnin sé einfaldlega betra fyrirkomulag en að láta sveitarfélögin hafa tekjustofninn.

Um hitt atriðið, hvort ég sé vongóður um að laun aldraðra og öryrkja verði hækkuð frá sama tíma og annarra, þá voru það óneitanlega vonbrigði í morgun að forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skyldi hafna þeirri leið í raun. En ég vil trúa því að þetta sé svo sjálfsögð sanngirniskrafa og ég hef heyrt málflutning hv. þingmanna Páls Jóhanns Pálssonar og Elsu Láru Arnardóttur sem virðist benda til að þau ætli að styðja tillögu okkar um breytingar í þessa veru og ég vil trúa því í lengstu lög að við náum meiri hluta í þinginu á bak við þetta sjálfsagða réttlætismál.