145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Mig langar að inna hana eftir því sem kemur fram í fjáraukalagafrumvarpinu um barnabætur og vaxtabætur. Það var gert ráð fyrir upphæðum vegna þeirra en verið er að taka þær út vegna þess að þær eru ekki taldar falla að viðmiðum um barnabætur sem skerðast við 200 þús. kr. Þess vegna rennur aftur inn í ríkissjóð 600 millj. kr. framlag í þennan málaflokk. Þetta gerist líka í vaxtabótunum, þar fara 200 millj. kr. aftur inn í ríkissjóð. Heildarfasteignamat heimila hækkaði um 8% og það hefur þau áhrif að litið er svo á að húsnæði hækki og þess vegna eiga menn ekki rétt á þessum vaxtabótum. En þó að eignastaða batni er ekki þar með sagt að greiðslustaða heimila batni.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni, sem ungum þingmanni, viðhorf hennar til þess hvort ekki hafi verið full þörf á að breyta viðmiðunarreglum varðandi barnabætur og nýta þessar upphæðir, 200 millj. kr. í vaxtabætur og 600 millj. kr. í barnabætur, þessum hópum til góða, ungu barnafólki sem á ekkert mjög auðvelt með að framfleyta sér eða festa sér húsnæði miðað við hvernig kaupin gerast á eyrinni. Ég spyr hvort hv. þingmaður sjái ekki fyrir sér að hægt hefði verið að nýta þetta fé með því að hnika til viðmiðunarreglum varðandi þessar greiðslur.