145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:42]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Samgöngur á Íslandi eru algerlega til skammar. Mér þykir mjög athyglisvert að sjá hvernig fjáraukalögin eru í raun og veru nýtt til að taka pólitískar ákvarðanir. Þótt fjáraukalög séu í eðli sínu pólitísk finnst mér þau ekki vettvangur til að vera annaðhvort, með leyfi forseta, í einhverju kjördæmapoti eða til að tryggja að einhverjir sérstakir vegir fái að fara fram yfir samgönguáætlun sem ég vissi ekki betur en að væri í gildi en það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér. Mér finnst mjög athyglisvert að farið sé fram hjá hefðbundnum ákvarðanaferlum.

Það er nauðsynlegt að laga vegakerfið hér á landi, svo mikið er víst. Þetta eru einir verstu vegir sem ég hef farið og þó hef ég farið upp í fjöllin í Kákasus þar sem ekki hafa verið lagðir vegir í 30 ár. Það er verra að keyra um Vesturland en að keyra þar. Það er full ástæða til að setja meiri pening í þennan málaflokk, en hins vegar þarf að fara eftir áætlunum.