145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[19:17]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef það fyrir sið að reyna að lesa ekki illt í áætlanir fólks fyrr en það er orðið fullljóst hverjar þær eru. En það verður að segjast eins og er að það frumvarp sem er verið að leggja hér fram, þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur fram og umræðan hér í dag, gefur manni merki um að forgangsröðunin sé skýr og hún rúmi því miður ekki öryrkja og ellilífeyrisþega.

En eins og ég minntist á hér áður þá er ég bjartsýnn maður. Ég leyfi mér, í allri bjartsýni og gleði, að trúa því að meiri hlutinn á Alþingi átti sig á því að það er þvílíkt réttlætismál — að maður tali nú ekki um þegar peningar eru í buddunni — að þessi frábæra breytingartillaga verði samþykkt með glamúr og gleði. Ég treysti því þangað til annað kemur í ljós.

Það er forgangsröðun í þessum fjárauka vegna þess að hér er verið að bæta upp ákveðna tegund af starfsemi. Það er verið að bæta upp í Vegagerðinni, það er verið að bæta upp í þjóðkirkjunni, Framkvæmdasjóði ferðamannastaða o.s.frv. En það er ekki verið að bæta upp í mikilvægum stofnunum velferðarkerfisins. Nú er ég að horfa á málefni sjúkra, aldraðra, öryrkja, útlendinga; túlkasjóðir eru óbreyttir o.s.frv. Ef eitthvað er þá eru mörg útgjöld í velferðarmálunum að leka niður miðað við verðlag frekar en að þau haldi sjó. Ég get því miður ekki annað en lesið pólitíska forgangsröðun út úr því.