145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera hér að umtalsefni málefni fatlaðra gagnvart sveitarfélögunum. Eins og við vitum tókst loksins á síðasta kjörtímabili, eins og svo margt annað sem talað hafði verið um lengi árin þar á undan, að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaga frá ríkinu þar sem þau eru miklu betur komin að mínu mati, í nærsamfélaginu.

Þá var líka talað um að þegar reynslan kæmi í ljós að nokkrum árum liðnum varðandi tekjuhliðina yrði það tekið til endurskoðunar. Þess vegna vil ég gera það að umtalsefni hér og nú að sveitarfélögin í landinu hafa kallað eftir viðræðum við ríkisvaldið um þá reynslu sem komin er og hvort ekki þurfi að hækka stuðninginn. Við heyrðum það, ábyggilega allir þingmenn, í kjördæmavikunni hvernig um það var rætt.

Ég vil einnig gera að umtalsefni að sveitarfélögin í landinu kalla mjög eftir því núna að fá meiri tekjur til sín af tekjuskattinum, útsvarinu. Við vitum að því er skipt milli ríkis og sveitarfélaga í dag og það hefur ekki breyst í langan tíma.

Nýgerðir kjarasamningar hafa meðal annars gert það að verkum að mörg sveitarfélög eru í vandræðum með að ná saman endum. Sveitarfélögin fá bara tekjur af einstaklingum, af útsvari, en ríkissjóður fær meðal annars tekjur af miklu innstreymi fjármagns í gegnum ferðamenn og aðra þannig að það er vitlaust gefið. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hlusti á ályktanir frá sveitarfélögum sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn taka þátt í að senda til ríkisvaldsins varðandi viðræður um þetta. Hvernig stendur það mál? Eða er það eins og svo margt annað að það gerist bara ekkert? Það liggur einhvers staðar þarna og gerist ekki neitt.

Að lokum ætla ég að halda áfram að taka undir það sem sagt hefur verið um málefni aldraðra og öryrkja, að þeir fái sín laun afturvirkt. Það sem við sáum hér fyrir utan húsið ætti að vera alveg nóg. Það er nú ekki verið að tala um háar fjárhæðir. Ég ætla ekki að (Forseti hringir.) bera það saman við önnur laun vegna þess að tíminn er liðinn. En það er okkur til skammar ef við klárum það ekki núna, kjararáð aldraðra og öryrkja, sem er Alþingi í raun og veru, með forsætisráðherra sem formann kjararáðs. Nú verðum við að klára málið.


Efnisorð er vísa í ræðuna