145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef maður spyr þjóðina er algjörlega skýrt hvernig íslenska þjóðin vill að skattfé sé forgangsraðað. Hún vill með mjög afgerandi hætti, óháð aldri, flokki og stöðu, að skattfé sé forgangsraðað í heilbrigðiskerfið þannig að ég vil byrja á að taka undir allt sem hv. þingmaður sagði á undan mér.

Það er önnur grunnstoð í samfélaginu sem við höfum tilhneigingu til að gleyma, fangelsiskerfið. Fangelsiskerfið er ekki valkvætt. Það er ekki munaður. Það er ekki eitthvað sem við getum ákveðið hvort við þurfum eða ekki. Við þurfum það. Það er ekkert gaman að þurfa það og við ættum að þurfa þess sem minnst. Leiðin til að þurfa þess sem minnst er sú að víkja burt af þeirri braut að einblína á refsingu. Ég ætla ekki að fullyrða að hér sé einblínt á refsingu, en hins vegar skiptir mestu máli að einblínt sé á betrun. Við erum ekki að því núna. Við erum hvorki að gera það í stefnu né þegar kemur að forgangsröðun fjár.

Til að hægt sé að standa undir fangelsiskerfi sem getur stuðlað að betrun þarf fjármagn, virðulegi forseti. Litla-Hraun býr við algjörlega óboðlegar aðstæður, vil ég sérstaklega taka fram, ekki bara fyrir fanga heldur líka fangaverði. Eins og frægt er orðið hefur Margrét Frímannsdóttir sagt upp störfum sem fangelsisstjóri þar vegna þess að hún telur sig ekki ráða lengur, eins og ég skil þetta, við þessar aðstæður. Enginn getur það vegna þess að það vantar fjármagn.

Að mínu viti eru ekki öll vandamál þannig að það dugi að ausa í þau peningum, en þetta er slíkt vandamál sem við þurfum að ausa í peningum. Ég veit ekki hversu mikið upp á krónu en ég giska á 50–80 milljónir. Ég veit að til stendur að auka fjármagn til málaflokksins, en við verðum að sýna honum áhuga ef vel á að fara.

Það er ekki boðlegt hvernig staðið er að fangelsismálum hér í dag og ef við ætlum að minnka þörfina á fangelsum verðum við að auka peninga sem fara í málaflokkinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna