145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Eðlilega eru fjárlögin þingmönnum ofarlega í huga. Það vill svo til að núna hefur, eins og í kringum síðustu fjárlagagerð, minni hlutinn sammælst um að koma saman að breytingartillögu sem mér finnst mjög gott. Það gefur henni vonandi meira vægi.

Við vitum öll að heilbrigðiskerfið er í molum. Það kemur ítrekað fram að það eigi að einkavæða heilbrigðisþjónustuna, sér í lagi heilsugæsluna. Mér finnst það alvarleg þróun. Það hefur ekki orðið almennileg umræða um það í samfélaginu og mér finnst líka alvarleg þróun í viðhorfum formanns fjárlaganefndar gagnvart yfirstjórn Landspítalans.

Ég veit ekki, kæru samþingmenn, hvernig við getum breytt þessu nema með því að höfða til samvisku þeirra sem fara með svo mikilvægan málaflokk sem fjárlögin eru og eru í forustu fjárlaganefndar.

Svo er annar hópur fólks sem verður alltaf út undan og það eru aldraðir og öryrkjar. Ég veit ekki hversu oft maður hefur bent á það í þessari pontu. Það er svo auðvelt að sniðganga fólk, eins og ég hef sagt svo oft áður, sem getur ekki hótað neinu nema að verða eldra og veikara. Ég hef heyrt marga þingmenn slá í borðið hjá minni hlutanum og kalla eftir því að við þingmenn, hvort sem við erum í minni hluta eða meiri hluta, stöndum vörð um þá sem minnst mega sín í samfélagi okkar. Ég vona svo sannarlega að þingmenn meiri hlutans taki undir tillögur okkar í minni hlutanum um að sniðganga ekki þennan hóp enn og aftur heldur tryggja að (Forseti hringir.) kjör hans séu jafn mikils virði og okkar eigin.


Efnisorð er vísa í ræðuna