145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að halda til haga sannleikanum í hverju máli. Ákvarðanir lyfjanefndar byggja á fyrirmælum ráðherra. Ráðherra hefur sjálfur gefið lyfjanefnd fyrirmæli um það verklag sem lýtur að sjúklingakvótanum sem er nýtt verklag og hefur ekki tíðkast í heilbrigðisþjónustunni áður, svo því sé til haga haldið.

En, virðulegi forseti, ríkisstjórnin svíkur aldraða og öryrkja, hún svíkur sjúklinga og láglaunafólk og hún svíkur landsbyggðina. Í dag kom út skýrsla Byggðastofnunar um hagvöxt landshlutanna 2009–2013 á árunum eftir hrun. Sú skýrsla sýnir okkur svart á hvítu þau hagvaxtarskil sem orðin eru milli höfuðborgar og landsbyggðar og hversu misjafnlega landshlutarnir standa að vígi. Hlutur höfuðborgarinnar í landsframleiðslu er kominn yfir 70% en hagvöxtur hefur verið minnstur á Norðvesturlandi alveg frá árinu 2000.

Framleiðsla dróst mest saman á Suðurnesjum og Vestfjörðum þar sem orðið hefur uggvænleg þróun eftir síðustu ár, ekki síst eftir tilkomu kvótakerfisins. Sú þróun er ekki náttúrulögmál heldur er hún mannanna verk. Hún stafar af ákvörðunum sem teknar hafa verið hér á Alþingi. Þeirri þróun mætti auðveldlega snúa við, til dæmis á Vestfjörðum með því að veita þeim landshluta forgang við uppbyggingu mikilvægra samgöngumannvirkja, með uppbyggingu fjarskipta, hringtengingu ljósleiðara og auknu raforkuöryggi, sem eru lykilþættir fyrir atvinnulíf og búsetu þessa landshluta þannig að hann sé samkeppnisfær. Dýrafjarðargöngin milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða eru úrslitaatriði í þessu efni svo þetta svæði geti nýtt sér sömu tækifæri og aðrir landshlutar. (Forseti hringir.)

Við eigum áætlanir, við eigum tæki og meðul til að snúa þessari þróun við og við eigum að nýta þau því að vilji er allt sem þarf.


Efnisorð er vísa í ræðuna