145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

2. umræða um fjárlög.

[11:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja máls á því að meiri hluti fjárlaganefndar er ekki búinn að skila af sér breytingartillögum fyrir 2. umr. fjárlaga. 3. umr. fjárlaga átti að fara fram í gær og maður spyr sig: Hvað veldur? Eru slíkar efnahagslegar nauðir að ekki sé hægt að koma fram fjárlagatillögum? Nei, það hefur aldrei gengið betur í ríkisbúskapnum síðustu ár. Er það vegna þess að lítill tími hafi gefist? Nei, það hefur aldrei gefist lengri tími til vinnslu fjárlaga en nú. Er það vegna þess að eitthvað annað haldi þingmönnum uppteknum? Nei, málafæð ríkisstjórnarinnar á sér engin fordæmi í seinni tíma þingsögu.

Það er alveg ótrúlegur skortur á verkstjórn af hálfu forustu fjárlaganefndar og af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á þessar aðstæður. Nú liggur fyrir vegna þessa að það er algjörlega óásættanlegt að 2. umr. fjárlaga fari fram á mánudag (Forseti hringir.) vegna þess að ekki hefur gefist færi til að rýna tillögur meiri hlutans og minni hlutanum ekki gefist færi á að móta sína eigin tillögur. Ég verð því að spyrja virðulegan forseta: Hvenær getur þá 2. umr. fjárlaga farið fram og mun forseti ekki fara að tryggja það að forusta fjárlaganefndar hætti að móðga fólk úti í bæ og fari að vinna vinnuna sína?