145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Annað sem vekur líka athygli og hv. þingmaður talar um er að svona hlutir komi ekki til umræðu hérna á þingi. Þá koma upp í hugann þættir eins og samgöngumál og Framkvæmdasjóður ferðamannastaða þar sem farið er fram hjá hefðbundnu ákvarðanaferli. Í samgöngumál eru settir 1,3 milljarðar sem fara ekki eftir hefðbundnum leiðum og engin umfjöllun er í raun og veru um, hvorki innan umhverfis- og samgöngunefndar né í samgönguráði, heldur er það ákveðið bak við luktar dyr hvert þessir viðbótarfjármunir fara, t.d. í samgöngur sem eru búnar að vera mjög vanfjármagnaðar undanfarin ár og hefði svo virkilega þurfti að spýta í. Ég tala nú ekki um þegar fjöldi ferðamanna kemur til landsins og við erum að reyna að ýta undir að ferðamenn fari vítt og breitt um landið en samgöngurnar bjóða ekki alltaf upp á slíkt.

Hvað þykir hv. þingmanni um þessi vinnubrögð og líka gagnvart Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem var mjög vanáætlað í í upphafi, 145 milljónir, og sagði sig sjálft að meiri fjármunir þyrftu að fara þangað? Þeir fjármunir koma seint og um síðir svo að þeir sem áttu að nýta þá höfðu ekki tíma til að undirbúa sig undir það og skipuleggja og setja í ferli það sem átti að framkvæma í sveitarfélagi þeirra í ár. Síðan bættust við einhvern tíma í vor 850 milljónir, sem eru innan fjáraukans, til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Það er spurning hvort þeir fjármunir hafa nýst út af því að þeir komu allt of seint. Þessi vinnubrögð eru svo aftarlega á merinni. Hvað telur hv. þingmaður um að þetta sé gert svona með annarri hendinni en ekki sé upphaflega áætlað í fjárlögum fyrir þessu?