145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það ekki sambærilegt að fyrirtæki borgi skatta eða fyrirtæki greiði gjöld eins og veiðigjöldin. Ég hef eiginlega ekki hugmyndaflug til að bera það saman í huga mér, ég verð að segja það.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að veiðigjöldin ættu ekki að vera ákveðin eins og þau eru. Ég er á því að bjóða eigi kvótann upp á markaði. Þá getum við sagt að þá mundu útgerðarfyrirtækin sjálf ákveða veiðigjöldin. Þá ákveða þau hvað þau treysta sér til að greiða mikið fyrir hvert tonn sem þau veiða upp úr sjónum. Þá yrði það hluti af aðföngum en ekki afgangsstærð sem reiknuð er einhvers staðar á borði. Það er mín skoðun á því hvernig reikna ætti út veiðigjöld og ég vona sannarlega að ég muni lifa að það fyrirkomulag verði tekið hér upp.

Ég gleymdi að segja í ræðu minni áðan að síðan nær ríkissjóður sér þarna í 800 millj. kr. sem við á þinginu vorum búin að ákveða að ætti að renna annars vegar til barnafjölskyldna, 600 millj. kr., og svo 200 millj. kr. í vaxtabætur. Með því að hafa skerðingarnar svo miklar og annað slíkt ætlar ríkissjóður að kippa þessum 600 millj. kr. aftur inn í sína sjóði í stað þess að breyta viðmiðunarmörkunum á árinu þegar ljóst (Forseti hringir.) var að þessar tekjur væru of lágar, vegna þess að það var Alþingi búið að ákveða, virðulegi forseti.