145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:12]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er verið að leika mjög ljótan blekkingarleik gagnvart þjóðinni þegar heilbrigðismálin eru annars vegar. Ég tek undir með hv. þingmanni, það sem vantar er fjármagnið.

Núna sjáum við hins vegar bara byrjun á lengra ferli, og þá horfi ég ekki síst til Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið áhugasamur um einkavæðingu, ekki síst innan heilbrigðisþjónustunnar. Hann byrjar á því að fela einkaaðilum rekstur á stofnunum, þar á meðal heilsugæslustofnunum núna. Halda menn að þeir sem fá reksturinn í sínar hendur missi hann einhvern tímann? Haldið þið að það verði haldið annað útboð eftir tíu ár og þá komi nýtt teymi, nýir læknar, nýir rekstraraðilar? Nei. Útboðið virkar hugsanlega einu sinni.

Síðan fer hin raunverulega markaðsvæðing fram í því sem heilbrigðisráðherra lýsti yfir fyrir nokkrum dögum. Hann sér fyrir sér kerfi þar sem fjármagn fylgi sjúklingi. Þá taka heilbrigðisstofnanirnar til við að berjast um sjúklingana og munu reyna að fá þá sjúklinga sem gefa mest af sér. Fáir munu vilja fiska í dreifbýlinu því að það gefur minna. Reynslan erlendis frá af sambærilegum kerfum er sú að í fátækari hlutunum er minna sótt í svona kerfi. Þarna er stefnt að því að hin raunverulega samkeppni fari fram.

Ég leyfi mér að hvetja menn til að lesa þessa grein sem ég ritaði í DV í dag — (VigH: … auglýsa DV?) Já, ég er að auglýsa grein, ég er að kalla eftir umræðu og þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að hafa staðið framarlega í að vekja okkur undanfarna daga með skrifum, m.a. þar og annars staðar og í ræðustól hér, vegna þess að ekki er vanþörf á. Við þurfum að taka þessa (Forseti hringir.) umræðu. Hvað vakir raunverulega fyrir stjórnvöldum? Ég held að það sé alveg ljóst.