145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja þig um það sama og sá sem talaði á undan mér, að setja mig á mælendaskrá af því að það er byrjað hér nokkurs konar málþóf eða málæði, það sést, þannig að ég bið um að ég sé sett á mælendaskrá. Þá er bara best að taka þátt í fjörinu. Það er flott.

Í svari hv. þm. Ögmundar Jónassonar kemur alltaf á eftir: „en við ætluðum að gera þetta, við vorum að fara að breyta þessu“ en svo, því miður, þeirra vegna, voru þau kosin í burtu. Þetta er nefnilega málflutningurinn. Vinstri grænir voru í ríkisstjórn í fjögur ár á síðasta kjörtímabili, Samfylkingin í sex ár, og svo er alltaf sagt: Við vorum að fara að gera þetta en gerðum þetta ekki.

Samfylkingin ætlaði til dæmis að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu, taka upp fyrningarreglur í sjávarútvegi, en hún var að fara að gera það en hafði ekki tíma til þess. Samt sat hún í ríkisstjórn í sex ár.

Ég ætla að benda á aðra hræsni í málflutningi þessara aðila, virðulegi forseti. Hér er talað mikið um að núverandi ríkisstjórn hafi aflagt auðlegðarskatt sem var nýyrði sem er ekkert annað en eignarskattur en það þurfti að finna nógu neikvætt orð á þetta skattform vinstri stjórnarinnar til að hægt væri að segja að auðmenn ættu að borga meira til samfélagsins.

Virðulegi forseti. Þegar þessi auðlegðarskattur komst svo í framkvæmd bitnaði hann verst á eldri borgurum sem sátu í mjög stórum eignum sem voru ekki seljanlegar eftir bankahrunið. Þar var þetta fólk svipt lífsviðurværi sínu. Auðlegðarskatturinn var tímabundinn skattur og það var ákvörðun fyrri ríkisstjórnar þannig að ríkisstjórnin sem nú situr fór auðvitað ekki þá leið þó að vinstri flokkarnir gagnrýni ríkisstjórnina núna fyrir að hafa ekki farið þá leið.

Þetta er svo mikill tvískinnungur, virðulegi forseti. Vinstri stjórnin setti auðlegðarskattinn á tímabundið. Hann átti bara að vara í tvö ár og svo átti að afnema hann en nú er hrópað: Hvar er auðlegðarskatturinn? Ríkisstjórnin hugsar bara um þá ríku.