145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fór ágætlega yfir ferlið sem farið er eftir og hefð er fyrir að fara eftir þegar fjárlög eru unnin og benti jafnframt á að þar yrði breyting á ef við samþykkjum frumvarpið um opinber fjármál. Ég get tekið undir mjög margt í ræðu hv. þingmanns, en ég get þó ekki samþykkt að það skipti engu máli hvaða ríkisstjórn er við völd, að alltaf komum við með svo og svo stóran pakka í fjáraukalögum. Það er ekki rétt. Það er sýnt ágætlega í fjáraukalagafrumvarpinu á bls. 46 hvernig þróunin hefur verið. Þar er þróunin sýnd frá 1998 alveg til 2015 og að meðaltali frá 1998–2008 voru frávik frumútgjalda, að frátöldum óreglulegum liðum eins og stendur í frumvarpinu, 5% með fjáraukalögum. En eftir hrun er meðaltalið frá 2009 og núna til 2015 rétt um 1,5%. Að vísu eru þessi fjáraukalög aðeins yfir því meðaltali, þannig að vonandi erum við ekki að halda í átt til fyrri tíma hvað það varðar.

Hv. þingmaður fór svo vel yfir tilgang og markmið laganna og hvað ætlast er til af okkur samkvæmt lagabókstafnum. Nú eru felldar tillögur um að setja aukið fjármagn í ferðamannastaði og vegagerð. Ég held að hv. þingmaður hafi gert það hér í þingsal þegar við samþykktum fjárlög 2015 þótt allir hefðu vitað að síðar þyrfti að koma fjármagn í fjáraukalögum. (Forseti hringir.) Hvað vill hv. þingmaður segja um það þegar menn samþykkja fjárveitingar sem þeir vita (Forseti hringir.) að duga ekki fyrir málaflokkinn?