145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:47]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú mikill munur á 5% og 1,5% í þessu samhengi, (Gripið fram í.) sem sýnir að við erum á réttri leið, sem betur fer, en við erum alls ekki komin á þann stað sem aðrar þjóðir eru á sem við viljum bera okkur saman við. Við þurfum sannarlega að bæta okkur í áætlanagerð. Mér finnst sjálfsagt að líta til síðustu fjárlagagerðar og skoða mistökin sem við gerðum þá og reyna að passa okkur á því að detta ekki í sama drullupollinn aftur. Það eru slíkar reddingar sem eru í þessum fjáraukalögum.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Getur hún ekki fallist á að fyrst verið er að bæta upp magnaukningu hjá sérgreinalæknum og á einkareknum heilsugæslustöðvum í þessum fjáraukalögum, að eðlilegt hefði verið að gera slíkt hið sama fyrir heilsugæslu og sjúkrahús sem rekin eru af hinu opinbera?