145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fróðlega ræðu og ágæta yfirferð. Ég er sammála henni í mörgum atriðum eins og oft gerist raunar í okkar samtali, en þó vil ég segja að ég velti fyrir mér því þegar hún tekur býsna djúpt í árinni og heldur því fram að útbreitt sé um allt kerfið að sjálfsagt sé að virða ekki fjárlögin, það sé útbreitt meðal forstöðumanna ríkisstofnana, í ráðuneytum og víðar. Við sjáum greinilega að við erum á réttri leið og við þau skakkaföll sem urðu í efnahagshruninu var augljóst að þessi mál voru tekin mjög föstum tökum að gefnu tilefni. Við erum enn þá á þeim stað að frávikið er umtalsvert minna en við höfðum vanið okkur á á löngum tímabilum í aðdraganda hrunsins, það skiptir auðvitað miklu máli.

Eftir höfðinu dansa limirnir og við þekkjum það sem hér erum með fjárstjórnarvaldið og síðan ráðuneytin að við erum fyrirmyndir fyrir stofnanirnar sem horfa til okkar með það hversu alvarlega við tökum það sem við gerum sjálf. Við ræðum væntanlega síðar í dag opinber fjármál þar sem við ætlum að freista þess að ná betri tökum á þessum ferlum öllum, en um leið gerum við lítið úr fjárstjórnarvaldi Alþingis með því að taka ákvarðanir á miðju ári eins og um 850 milljónir til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og síðan tiltekið fjármagn í vegagerð á miðju ári þar sem framkvæmdarvaldið í raun og veru sem slíkt tekur ákvörðun um það, auðvitað með fyrirvara um samþykkt Alþingis, að ráðstafa ekki 10 milljónum heldur umtalsverðum fjármunum sem þó voru fyrirséðir og margoft var búið að benda á. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvaða skilaboð erum við að senda stofnununum bara með þessum tilteknu ákvörðunum?