145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við erum einfaldlega að senda þeim mjög vond skilaboð. Þetta vinnulag ráðherra sem og annarra ráðherra í ríkisstjórnum sem vinna með þessum hætti eru ekki boðleg miðað við fjárlögin. Það skiptir mig akkúrat engu máli, virðulegur forseti, þegar ég er að ræða grundvallarspurningar sem mér finnst að við þurfum að svara hvort það eru ráðherrar í mínum flokki eða ráðherrar í Framsóknarflokki, Vinstri grænum, Samfylkingunni eða hvaða flokki sem er. Þetta er ekki boðleg hegðun. Fólk virðir ekki fjárlögin og við erum að tala um að virða lög.

Ef ráðherrar hafa ekki gert ráð fyrir fjármagni og ekki stofnanir í umræðum við ráðherra um fjármagn til þess að vinna verkin þá verða verkin einfaldlega að mínu mati, virðulegur forseti, að bíða. Þannig ætti ferlið að vera. Þannig ætti ákvarðanatakan að vera innan ríkisstjórna sem og hjá stofnunum og síðan hjá þingmönnum. Þetta er rangt ferli, virðulegi forseti, og ég ítreka að í grundvallarspurningunum sem ég var að velta hér upp áðan þá skiptir það mig engu hvaða flokkar eru í ríkisstjórn á meðan ferlið er með þeim hætti sem það er.