145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:54]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er þannig með þá hópa sem hv. þingmaður nefnir og á þar væntanlega við öryrkja og eldri borgara sem eru á lífeyri, ellilífeyri eða grunnlífeyri og tekjutengdum lífeyri úr almannatryggingakerfinu frá Tryggingastofnun, að ég lít svo á að kjör þeirra séu ekki bundin kjarasamningum sem gerðir eru á almennum markaði eða hjá hinu opinbera. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, virðulegur forseti, að enginn óski þess að verða veikur og við þurfum að horfa til þess að öryrkjar njóti úr almenna tryggingakerfinu slíkra greiðslna að þeir geti séð sér farborða. Mér finnst horfa öðruvísi við með það, virðulegur forseti, og ég leyfi mér að segja, komin á þann aldur sem ég er, hafandi greitt í lífeyrissjóð í 30–40 ár, að horfa þurfi til þess (Forseti hringir.) að stærsti hluti þeirra sem er fullorðinn í dag hefur tekjur úr lífeyrissjóði, þær koma fyrst, en ellilífeyrir frá almannatryggingakerfinu (Forseti hringir.) er viðbót og það á ekki endilega að vera afturvirkt, virðulegur forseti.