145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að taka þátt í þessari umræðu vegna þess að við höfum kallað mikið eftir því að eiga samtal við stjórnarliða um frumvarp til fjáraukalaga, eiga við þá skoðanaskipti og það er hægt núna við hv. þingmann. En ég vona að það sé ekki ákvörðun þingflokks sjálfstæðismanna að hún ein tali en engir aðrir, vegna þess að ég t.d. er mjög spenntur fyrir því að hv. varaformaður fjárlaganefndar, Guðlaugur Þór Þórðarson, komi í umræðu og við getum átt samtal við hann um marga þætti. En fyrir þetta skal þakka og ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður sagði um að fjárlög eru lög frá Alþingi og þau ber að halda eins og önnur lög í landinu. Það á að heyra til undantekninga og lagfæringa það sem gerist í fjáraukalögum en ekki t.d. að þegar hæstv. ferðamálaráðherra er gerð afturreka með frumvarp um náttúrupassa, þá arfavitlausu tillögu, sé komið saman á ríkisstjórnarfund og sagt: Nú er þetta farið og þá verðum við að setja 850 milljónir í þetta og það kemur til þingsins á þessum tíma til að samþykkja. Þannig að ég get tekið undir margt sem hv. þingmaður sagði.

Það sem ég vil spyrja hv. þingmann um er það sem ég hef margoft rætt hér, þ.e. afturvirkar greiðslur til aldraðra og öryrkja eins og allir aðrir þjóðfélagsþegnar fá sem gert hafa kjarasamninga. Af hverju fá ekki aldraðir og öryrkjar afturvirka greiðslu? Í þessu frumvarpi til fjáraukalaga er lögð til 3,5 milljarða hækkun fjárheimilda liðarins sem heitir Ófyrirséð útgjöld, þannig að í hann fara 9,5 milljarðar, og sú hækkun er vegna þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið eins og segir í útskýringu. Síðan verður þessu deilt út til þeirra stofnana sem þurfa að greiða meira á þessu ári.

Spurning mín til hv. þingmanns er einfaldlega þessi: Af hverju hafa þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ekki léð máls á því að aldraðir og öryrkjar fái líka afturvirka uppbót á sín laun eins og gengur og gerist hjá öllum öðrum í þjóðfélaginu?