145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta svar og væri gaman að hafa meiri tíma til að ræða það frekar og fara í gegnum vegna þess að vissulega er mikil þörf á að ræða þetta kerfi allt saman. Eins og hv. þingmaður talar um þá vitum við að þegar fólk fer á ellilífeyri, við skulum segja bara fólk á okkar aldri, sem er búið að borga í lífeyrissjóð alla sína tíð, fær það mikla skerðingu, þá standa bara eftir þessar 35 eða 37 þús. kr. sem eru grunnlífeyrir. Allar þessar tekjur frá lífeyrissjóðum skerða það, en það gerist ekki hjá öryrkjum. Þess vegna er mikið sanngirnismál að aldraðir og öryrkjar standi ekki eftir og það er það sem ég ætla að spyrja hv. þingmann aftur út í. Það er eðli fjáraukalaga að þar er brugðist við kjarasamningum þar sem öllum hefur verið úthlutað afturvirkum greiðslum frá því samningar voru lausir. Þá stendur það með alla og gert ráð fyrir því í útgjöldum ríkissjóðs til að mæta kostnaðarauka stofnana, en aldraðir og öryrkjar standa eftir. Þá er spurningin bara þessi: Af hverju í ósköpunum (Forseti hringir.) fara ríkisstjórnarflokkarnir í þá vegferð að samþykkja það ekki og viðurkenna ekki þá staðreynd að aldraðir og öryrkjar eiga að fá þetta (Forseti hringir.) afturvirkt eins og allir aðrir? Það er bara sanngirnismál.