145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að fá að halda aðra ræðu mína í þessu máli, einkum til að fara yfir þau mál sem ég náði ekki að fara yfir í ræðu minni hér í gær. Þar gerði ég eðli fjáraukalaga að umtalsefni. Í ágætu nefndaráliti minni hlutans er beinlínis vitnað til laga, í inngangskafla frumvarpsins, um hlutverk fjáraukalaga og hvernig þau eru skilgreind í lögunum um fjárreiður ríkisins. Þar kemur mjög skýrt fram að fjárráðstöfunum í fjáraukalögum er fyrst og fremst ætlað að taka til óhjákvæmilegra málefna, einkum vegna ófyrirséðra atvika; vitnað er til áhrifa nýrra kjarasamninga eða nýrrar löggjafar en ekki til áforma um ný verkefni, aukins umfangs starfsemi eða til dæmis rekstrarhalla einstakra ríkisstofnana umfram setta útgjaldaramma, enda er mælt fyrir um það í lögunum að vísa beri slíkum tillögum um breytingar á fjárheimildum til umfjöllunar um fjárlög fyrir næsta fjárhagsár.

Í gær nefndi ég nokkur dæmi þessa efnis og tók undir með meiri hlutanum, í nefndaráliti hans, sérstaklega hvað varðar Telenor, sem er það sem við gætum kallað sígilt viðfangsefni fjáraukalaga en á að sjálfsögðu ekki að vera uppi á borðum ár eftir ár. Ég nefndi tónlistarskólana, þar sem er mjög mikilvægt að skýr framtíðarsýn liggi fyrir sem fyrst, og svo nefndi ég líka ferðaþjónustuna. Það slær mig hins vegar að meiri hlutinn nefnir þessi mál líka en tiltekur sérstaklega að hvað varði ferðamannastaðina, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, hafi þau mál verið kynnt í fjárlaganefnd í vor sem meiri hlutinn teldi til fyrirmyndar. Þar er Vegagerðin líka nefnd og það er málið sem ég náði ekki að fara yfir hér í gær.

Herra forseti. Það er umhugsunarefni að þegar kemur að ferðamannastöðunum þá var það reifað og við því varað, ekki bara í fjárlögum fyrir árið 2015 heldur líka fyrir árið 2014. Minni hlutinn benti ítrekað á það, í umræðum um fjárlögin, að þar væru fjárveitingar stórkostlega vanáætlaðar. Á þær ábendingar — viðvaranir, hvað sem við köllum það — var ekki hlustað. Það er ástæðan fyrir því að við fáum nú tillögu um verulega innspýtingu í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða upp á 850 millj. kr.; næstum því milljarður er settur í framkvæmdasjóðinn, sem öllum hefði mátt vera ljóst að þurfti meiri peninga, enda um undirstöðusjóð að ræða fyrir stærstu útflutningsgrein landsins um þessar mundir, ferðaþjónustuna. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt hér að það þarf að fara að horfa til framtíðar, það þarf að fara að móta skýra stefnu. Ég er ekki viss um að nýstofnuð stofnun fyrir opinbert fé, þ.e. Stjórnstöð ferðamála, þjóni því að gera þessa mynd einfaldari því að við erum áfram með ýmsar stofnanir sem eiga að sinna stefnumótun í ferðaþjónustu og enn erum við ekki komin með skýra sýn á það hvernig fólk sér fyrir sér gjaldtöku á ferðaþjónustu.

Annað vildi ég ræða hér og það eru samgöngumálin. Hér eru 1.300 millj. kr. lagðar til Vegagerðarinnar vegna brýnna vegaframkvæmda. Ég kom að því í andsvari í gær að hér hefur verið kallað eftir samgönguáætlun — samgönguáætlun var meira að segja lögð fram fyrir tveimur þingum og sett í vinnslu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd en ekki lokið við þá vinnslu — og þá var óskað eftir því að nefndin gæti meira að segja unnið ákveðna forvinnu, getum við sagt, áður en næsta samgönguáætlun yrði lögð fram. Ekki var ráðist í þá forvinnu og ný samgönguáætlun kom ekki fram. Það sem veldur mér áhyggjum, herra forseti, er að hér er verið veita fjármuni, vafalaust í góð verkefni, án þess að umræða hafi farið fram á Alþingi; umræðan hefur hvorki farið fram á Alþingi né í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Hér hefur ekki farið fram það lögbundna ferli, sem við höfum sjálf sett í lög, að fjárveitingum til samgöngumála eigi að forgangsraða með því að samþykkja samgönguáætlun.

Ég fer að velta því fyrir mér, herra forseti, í ljósi þess að nú er ætlunin að ráðast í aðra stefnumótun á sviði samgöngumála: Við erum með lögbundið ferli og þar kemur samgönguráð að því að móta samgönguáætlun sem ráðherra leggur fyrir þingið. Þingið tekur svo heilmikla umfjöllun um það mál og það þekkja þeir hv. þingmenn sem hafa komið að þessum málum að þar er farið yfir málin með fulltrúum sveitarfélaganna, gerðar ýmsar breytingartillögur og reynt að hafa ferlið eins lýðræðislegt og hægt er. Nú liggur hins vegar fyrir að hæstv. innanríkisráðherra ætlar að fara í víðtækari eða breiðari stefnumótun, hefur óskað eftir fulltrúum í vinnu um að gera einhvers konar hvítbók um samgöngumál. Það kann að vera að það sé annað ferli en nú þegar er mælt fyrir um í lögum en mér finnst það samt skjóta skökku við á meðan lögum er ekki fylgt um það hvernig eigi að ákvarða fjármuni til samgöngumála, á meðan hv. þingmenn fá ekki tækifæri til að ræða samgöngumál. Ég leyfi mér að segja að ég fæ ekki eins mörg bréf út af nokkru öðru máli og samgöngumálum. Auðvitað eru öll mál sem við fjöllum um mikilvæg og snerta almenning í landinu, en ástæða allra þeirra bréfa sem ég fæ er fyrst og fremst sú að fólk er að spyrja hvar samgönguáætlunin sé. Hvar er áætlunin? Er gert ráð fyrir þessu, er það enn í gildi sem var í síðustu drögum að samgönguáætlun sem aldrei voru samþykkt? Verða breytingar á því í þinginu? Óvissan er algjör, herra forseti. Þó að ég efist ekkert um að það sem er lagt til hér renni allt til brýnna vegaframkvæmda þá hefur ekki farið fram eðlileg umræða um þessi mál.

Það er búið að spyrja hæstv. ráðherra hvort áætlunin sé á leiðinni, ég gerði það síðast sjálf nú í vor. Þá var áætlunin á leiðinni en nú er kominn desember og engin áætlun komin hér í þingið. Hins vegar fréttir maður af því að fara eigi í víðtækara samráð, annars konar samráð, almenna stefnumótun sem á að vera einhver undirstaða. Ég spyr, herra forseti: Er ætlunin að við bíðum eftir því að fulltrúar séu tilnefndir í einhvern samráðsvettvang sem fílósóferar, svo að ég sletti nú aðeins, um helstu gildi samgangna á meðan ekki á að fylgja lögbundnu ferli? Er það svo? Kannski væri eðlilegt að kalla eftir sérstakri umræðu um það hvar samgönguáætlunin er og af hverju ekki sé hægt að fylgja lögum um þessi mál. Mér finnst það að minnsta kosti mjög skringilegt að þar sem framkvæmdarvaldið sinnir ekki þeim skyldum að undirbúa áætlun samkvæmt lögum — þingið hefur ekki fengið tækifæri til þess að sinna sínum lögbundnu skyldum og ljúka umfjöllun um samgönguáætlun — þá sitjum við uppi með það að hér er verið að veita meira en milljarð til vegaframkvæmda í fjáraukalögum. Þar á það að sjálfsögðu ekki heima, það á að sjálfsögðu heima í fjárlögum hvers árs. Við eigum að hafa skýra áætlun sem leiðbeinir okkur um það hvernig fjármunum er varið á hverjum tíma. Við eigum ekki að þurfa að vera að eiga við þessi mál í fjáraukalögum.

Herra forseti. Þetta tengist því sem ég ræddi hér í gær, þeirri dapurlegu staðreynd að við glímum við það að innan ramma fjárlaga — síður innan ramma fjáraukalaga, en líka þar — er verið að lauma inn ýmiss konar pólitískum ákvörðunum án þess að þær hafi fengið fullnægjandi lýðræðislega umræðu. Kannski kallar það á sérstaka umræðu, ekki endilega hér í þessum sal heldur á vettvangi þingflokksformanna, um það hvernig þingið er skilið eftir í ákvarðanatöku á borð við þessa þar sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd er skilin eftir. Hún er ekki að sinna sínu lögbundna hlutverki sem skyldi, hún er ekki að fara yfir forgangsröðun framkvæmdarvaldsins og Vegagerðarinnar. Hennar hlutverk er meira að bíða eftir framkvæmdarvaldinu en á meðan er til dæmis ekki staðið við samninga um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Á meðan rignir inn fyrirspurnum um hvort til standi að malbika þennan veg eða hinn, hvort drögin að áætluninni sem síðast komu fram séu enn í gildi. Samkvæmt fjárveitingunum eru þau ekki enn í gildi, því að fjárveitingarnar eru heldur rýrari en þau drög sem við sáum hér síðast. Ég geri athugasemd við það vinnulag að forgangsröðun í samgöngumálum sé ekki til umræðu á eðlilegum stöðum. Það dugir ekki að framkvæmdarvaldið hafi upplýst hv. fjárlaganefnd um fyrirætlanir sínar hvað varðar þessi mál, sem réttilega eru tilgreind á gráu svæði. Það er vissulega kurteislegt og ágætt þannig séð en það gengur ekki að lögum sé ekki fylgt eins og í þessu tilviki. Ég geri verulega athugasemd við það.