145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:45]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú erum við með á dagskrá á eftir 3. umr. um lagafrumvarp um opinber fjármál, þau lög eiga að koma í stað laga um fjárreiður ríkisins, og þar er mjög skýrt að ekki er ætlast til þess að fjáraukalög séu nýtt í þessum tilgangi eða með þessum hætti. Við höfum líka séð það að á árunum eftir hrun að minnsta kosti var mjög lítið um viðbætur í fjáraukalögum þannig að mér finnst við aftur vera komin á þann stað að verið er að setja fjármuni í málaflokka í gegnum fjáraukalög sem ættu algjörlega og réttilega heima í fjárlögum.

Ég velti fyrir mér ástæðum þessa og mér sýnist ástæðurnar vera þær að það er vandræðagangur í stefnumótuninni. Hvort sem er í samgöngumálum eða í málefnum ferðaþjónustunnar er búinn að vera vandræðagangur í stefnumótuninni sem gerir að verkum að það er ekki eðlileg áætlanagerð í gangi þar sem gert er ráð fyrir tilteknum fjárhæðum í fjárlögum og svo er verið að bregðast við hlutunum eftir á. Skiptir það máli, spyr hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, í ljósi þess að allir virðast hafa haft einhverja tilfinningu fyrir því að það mundi þurfa einhverja aukapeninga? Í fyrsta lagi skiptir það máli því þetta eru náttúrulega ekki góð vinnubrögð og meiri hlutinn er sammála okkur um það en í öðru lagi skiptir máli að það er náttúrulega óþolandi staða, hvort sem er fyrir þá aðila sem sækja um styrki eða aðila sem sinna beinlínis framkvæmdum á vegum hins opinbera eins og Vegagerðina, að geta ekki gert eðlilegar áætlanir, geta ekki reiknað með fjármunum heldur vera í einhverju limbói um að líklega komi eitthvað við samþykkt fjáraukalaga í desember á því sama ári. Það er auðvitað ekkert í lagi, herra forseti.