145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[13:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins um þessar framkvæmdir. Það er rétt hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að þetta eru fjórir vegir sem um ræðir. Það er Dettifossvegur, Kjósarskarðsvegur, þ.e. þjóðvegur númer 48, Kaldidalur og Uxahryggir númer 52, ef ég man rétt. Það þarf auðvitað ekki að koma nokkrum manni á óvart að þessa vegi þarf að laga, við höfum verið með þá til umræðu, þeir hafa birst í drögum að samgönguáætlun og margoft búið að ræða um þá og öllum er ljóst sem hafa keyrt þessa vegi að það er brýn þörf á þessum stöðum. Það sem ég geri náttúrulega fyrst og fremst athugasemd við er að það var algjörlega fyrirsjáanlegt að það hefði þurft að eiga við þessa vegi. Þar af leiðandi hefði verið æskilegt að við hefðum verið búin að ræða það á réttum vettvangi, á þingi og í umhverfis- og samgöngunefnd og við værum með samþykkta samgönguáætlun þar sem ég er ekki í nokkrum vafa um að þessir vegir hefðu verið á meðal þeirra framkvæmda sem þar hefðu verið lagðar upp. Mér finnst ekki hægt að rökstyðja að þetta sé ófyrirsjáanlegt með neinum hætti, það er bara þannig. Mér finnst þetta vera til marks um lélega áætlanagerð og það er auðvitað það sem gerist þegar fólk fylgir ekki lögbundnu ferli og samþykkir ekki samgönguáætlun í þinginu. Kannski er það til að draga til athyglina frá því hversu einstaklega rýr sú samgönguáætlun var sem lögð hefur verið fram.

Hvað varðar hvítbók um samgöngur sem ég vitnaði til áðan þá liggur fyrir af hálfu hæstv. ráðherra að hún hefur áhuga á að fara í annars konar stefnumótun. Samgönguáætlun er auðvitað framkvæmdaáætlun, þar erum við bara að samþykkja tíu kílómetra hér og þrjá kílómetra þar. Með þessu er átt við almennari stefnumótun þar sem kallaðir verði til meðal annarra fulltrúar þingflokka, ráðuneyta, stjórnsýslu, hagsmunaaðila í einhvers konar stærra samráð um almenna stefnumótun. Ástæða þess að ég dró það fram er að mér finnst skjóta skökku(Forseti hringir.) við að verið sé að fara af stað með enn eitt ferlið meðan ekki er einu sinni verið að fylgja lögbundnum ferlum um það hvernig við eigum að haga stefnumótun okkar í samgöngumálum.