145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:06]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og ítreka mikilvæg grundvallaratriði. Almenn löggæsla er vopnlaus í störfum sínum, á því er engin breyting. Engin ákvörðun er heldur fyrirliggjandi um aukinn vopnaburð lögreglu. Þetta skiptir máli. Um heimild lögreglu til valdbeitingar er fjallað í lögreglulögum sem eru frá 1996 og þar kemur fram að lögreglumenn mega aldrei ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Gæta skal meðalhófs.

Í vopnalögum er það svo lagt í hendur ráðherra að setja reglur um vopn lögreglu og notkun þeirra, þar á meðal skotvopn. Slíkar reglur voru settar árið 1999. Í þeim felst stefnumörkun um meðferð, notkun og geymslu vopna lögreglunnar. Með þessu er mikið vald lagt í hendur ráðherra. Í mínum huga er ljóst að um stefnumarkandi atriði á borð við heimildir lögreglu til að bera vopn verður að hafa samráð við þingið og tryggja gagnsæi gagnvart almenningi. Í því ljósi ákvað ég að birta reglurnar. Þær setja ákveðinn ramma um vopn og valdbeitingartæki lögreglu. Það er alveg ljóst að á þessum reglum eru ytri mörk sem lögreglan má ekki fara yfir.

Lögreglan þarf á hverjum tíma að vera vel undirbúin og vel þjálfuð í störfum sínum. Það er ríkislögreglustjóri sem leggur mat á þörf lögreglu fyrir búnað hverju sinni og ákveður hverrar gerðar hann skal vera. Ríkislögreglustjóra hefur þannig verið falið það hlutverk að meta þarfir lögreglu fyrir búnað, skipulag og þjálfun innan þeirra marka sem vopnareglur segja til um. Það þarf til að mynda ekki atbeina ráðherra eða ráðuneytis með beinum hætti til að endurnýja vopnakaup, svo fremi sem fjárheimildum um kaupin séu settar reglur af sama meiði. Mat ríkislögreglustjóra um búnaðarþörf lögreglunnar byggist á áhættumati á víðtækum grunni sem tekur mið af þróun mála hérlendis og erlendis og segir til um líklega framtíðarþróun. Það er afar mikilvægt að þessi skipan mála sé mönnum ljós.

Hvað snertir búnað í lögreglubifreiðum, sem er kveikja að umræðu hv. þingmanns, eru nú geymdar skammbyssur í sex lögreglubifreiðum á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða lítinn hluta bílaflotans sem hleypur á tugum. Þá má einnig geta þess að nokkrar lögreglubifreiðar á landsbyggðinni eru nú þegar með slíkan búnað um borð. Ekki er þörf á að breyta reglunum á meðan breyttur geymslustaður takmarkast við þann fjölda bifreiða sem nú er, en telji lögregluyfirvöld nauðsynlegt að fjölga bifreiðum þar sem vopn eru geymd í læstum hirslum, þannig að ekki sé einungis um sérstök tilfelli að ræða heldur nær því að vera almenn regla, mun reyna mjög á gildissvið þessara reglna enda eru á þeim ytri mörk sem ber að túlka þröngt.

Herra forseti. Það má aldrei ganga lengra í beitingu valds en nauðsynlegt er hverju sinni. Það er grundvallarregla og það skiptir gríðarlega miklu máli að gæta hófs í meðferð valdsins. Lögreglunni ber ávallt að hafa meðalhófsregluna í heiðri við framkvæmd starfa sinna. Áherslur hv. þingmanns í þessari umræðu eru meðal annars á upplýsingagjöf til almennings og Alþingis. Ég er þeirrar skoðunar að upplýsingar sem megi birta eigi að birta. Það er alltaf gagnlegra og það á að vera leiðarljós í okkar störfum. Um sum verkefni sem lögreglan sinnir er eðli máls samkvæmt ekki hægt að tala opinberlega. Sú ákvörðun sem hér um ræðir er þó ekki ein þeirra.

Það hefði verið betra ef yfirvöld hefðu komið upplýsingunum betur á framfæri. Umræðan fór þannig af stað að fólk gat haldið að verið væri að auka vopnaburðinn. Ég er ekkert hissa á að fólki hafi brugðið við það. Það er brýnt að almenningur og við öll skiljum hvað er að gerast svo ekki myndist gjá á milli sem við vitum að er vont, ekki síst fyrir löggæsluna í landinu.

Hæstv. forseti. Það þarf að gera greinarmun á því hvort lögreglan hafi heimild til að ganga með vopn á sér eða hvort tekin sé ákvörðun um að færa geymslustaði frá lögreglustöð yfir í bifreið þar sem hirslurnar eru jafn öruggar og það þarf samþykki frá yfirmanni til að geta opnað hirsluna í neyðartilvikum, rétt eins og nú er. Þetta er mjög mikilvægt.

Enn og aftur, við erum ekki að tala um aukinn vopnaburð. Lögreglan á Íslandi er vopnlaus í almennum störfum og við viljum að svo sé áfram.