145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:16]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir að koma þessu mikilvæga máli á dagskrá. Sú staðreynd að lögregla landsins hefur alltaf verið vopnum búin er okkur öllum ljós eins og það viðhorf langflestra að vilja búa hér í þessu landi frjáls og með friði.

Reglur um meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna hafa verið birtar. Í þeim kemur fram stefnumörkun stjórnvalda um meðferð, notkun og geymslu vopna lögreglunnar. Þar kemur til dæmis fram að skotvopn skuli geymd í læstum hirslum eða í aðstöðu á lögreglustöð. Þó getur lögreglustjóri ákveðið að hafa skammbyssur í lögreglubifreiðum við sérstök tilfelli. Einn þáttur í störfum lögreglu úti um land er aðkoma að slysum þar sem ekið er á skepnur. Í mínu kjördæmi er auk þess leiðinlega algengt að ekið sé á hreindýr og þá oft á stóra hópa. Aðkoma að slysum sem þessum getur verið svakaleg þar sem skepnur eru oft illa farnar og sárþjáðar. Við slíkar aðstæður er ekki fýsilegur kostur að aka þurfi um langan veg til að sækja vopn til að aflífa þjakaðar skepnur. Ég reikna með að almenn sátt sé um að hafa skotvopn í lögreglubílum til þessara nota, en ég reikna ekki með að aðstæður sem þessar séu mörgum efst í huga við þá umræðu sem snýr að öryggi borgaranna. Engu að síður er þetta raunveruleiki sem vert er að hafa í huga því að á öllum málum eru nokkrar hliðar. Veröldin breytist og við verðum að aðlaga okkur að því upp að því marki sem við sættum okkur við. Sú sem hér stendur er alfarið á móti því að lögregla beri vopn á sér við dagleg störf og tekur heils hugar undir þau sjónarmið að farið sé stranglega eftir öllum reglum. Eðli málsins samkvæmt er ýmislegt í störfum lögreglu sem ekki er hægt að opinbera en ákveðnir þættir þurfa þó að vera opinberir til að viðhalda trausti. Skilningur okkar á því sem er að gerast þarf að vera sameiginlegur því að öll viljum við treysta á það frjálsa og örugga samfélag sem við lifum í.