145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:18]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að minna á mikilvæga forsendu þessarar umræðu, en hún er sú að valdbeitingarheimildir lögreglu séu birtar opinberlega eins og nú er gert, þökk sé hæstv. innanríkisráðherra, og ber að þakka sérstaklega fyrir það. Það er alveg þess virði að minnast þess sérstaklega að núna getum við rætt saman um það. Hér fer fram efnisleg umræða um 19. gr. reglnanna og fór sú umræða strax af stað í innleggi hv. fyrirspyrjanda.

Fólki bregður við þá fyrirhuguðu breytingu sem lýst hefur verið í fjölmiðlum, vegna þess hvernig fór síðast þegar byssur komu til tals hér þegar kaupa átti 150 MP5 hríðskotabyssur til landsins og jafnvel setja þær í bíla samkvæmt sumu af því sem maður heyrði. Öll umræða var mjög ómarkviss. Hún var ónákvæm, jafnvel villandi, hvort sem það var viljandi eða ekki, hvort sem það var hér á þingi, hjá lögreglu eða hvar sem er. Umræðan núna er mun yfirvegaðri og nákvæmari og ég þori að segja vægari, enda er um miklu vægari breytingu að ræða núna en síðast. Þannig eigum við að ræða þetta. Við þurfum að hafa umræðuna í þingsal vegna þess að valdbeitingarheimildir og vopnabúnaður lögreglunnar eru háð lýðræðislegu umboði. Það verður að vera þannig í lýðræðisríki og reyndar alls staðar ef út í það er farið.

Mér þykir mjög áhugavert það sem hæstv. innanríkisráðherra nefnir, að ef það eigi að gera það að almennri reglu að skammbyssur séu í hverjum bíl lögreglunnar reyni mjög á túlkun 19. gr. Ég er sammála því. En ég fagna því að sú umræða eigi sér stað hér og nú á opnum vettvangi fyrir opnum dyrum og að við getum rætt það opinskátt við kjósendur okkar í kjölfar þess að þessar reglur hafa verið opnaðar. Ég kem að fleiri punktum í síðari ræðu minni en þakka að lokum enn og aftur hæstv. innanríkisráðherra fyrir hennar góðu viðbrögð í þessum málum.