145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:25]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Líkt og aðrir þakka ég fyrir þessa umræðu sem ég tel mjög mikilvæga. Ég verð að segja að mér fannst einstaklega gott að heyra hæstv. ráðherra ítreka að lögreglumenn ættu ekki að vera vopnaðir við almenn löggæslustörf.

Ég tek líka undir það sem hér hefur verið sagt, mesta öryggið er fólgið í því að styrkja almenna löggæslu. Ég tel það gilda bæði fyrir almenna borgara þessa lands sem og lögreglumennina sjálfa. Það vantar fleiri lögreglumenn og líkt og hér hefur komið fram eru lögreglumenn oft einir í bílum. Það finnst mér mikið áhyggjuefni. Of fáliðað lögreglulið sem hefur jafnframt greiðan aðgang að vopnum er blanda sem ég tel stórhættulega.

Hér er búið að tala um að setja byssur í sex bíla. Rökin eru þau að bæta viðbragðstíma lögreglu. Ég hef áhyggjur af því að þetta geti leitt til stigmögnunar. Glæpamenn sem lögreglan fæst við geta auðvitað ekki vitað nákvæmlega í hvaða bílum skotvopnin eru. Ég hef áhyggjur af því að þeir muni bregðast við eins og skotvopn séu í öllum bílum. Ég hef áhyggjur af að það muni kalla á næsta skref sem verði að setja byssur í enn fleiri bíla og þannig koll af kolli.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi: Mesta öryggið er fólgið í því að styrkja almennu löggæsluna. Til að það sé hægt verður Alþingi vitanlega að setja fjármagn í það.